Ekki er ósennilegt að á næstu árum verði tíð smágos á Reykjanesskaga með landrisi inni á milli. Erfitt er þó að segja til um hvenær næsta slíka gos verður, segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús segir eldgosið skammt norðan við Grindavík ekki eins stórt og eldgosið við Sundhnúkagíga þann 18. desember.
Hann telur þó líklegt að draga muni úr yfirstandandi gosi álíka jafn hratt og gerði þá, eða á um þremur dögum.
„Það dró mjög hratt úr þessu síðdegis í gær og í gærkvöldi. Við verðum bara að sjá hvernig fram vindur, en þetta virðist ekki stefna í að verða stórt gos,“ segir Magnús.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, benti á það í samtali við mbl.is í dag að ekkert augljóst landsig væri í Svartsengi og því útlit fyrir að landris myndi halda þar áfram. Magnús segir of snemmt að segja til um hvers vegna ekki hefur orðið landsig í Svartsengi.
Hann segir það aftur á móti þannig að þegar kvikugangurinn treðst inn með sambærilegum hætti og hann gerði í gær, þá lyftist land næst ganginum á meðan það sígur annars staðar.
Þrátt fyrir það bendir Magnús á að þegar horft sé á heildarmyndina þá megi sjá greinilegt landsig á svæðinu.
„Sjálf stöðin í Svartsengi hefur ekki sýnt landsig, en stöðvarnar sem eru þar fyrir vestan og suðvestan – þær sýna allar landsig, svipað og var í desember,“ segir Magnús.
Spurður hvort landris í Svartsengi geti samt sem áður haft einhver áhrif á á gosið norðan við Grindavík segir Magnús of snemmt að velta vöngum of mikið yfir því, enda liggi mælingar ekki fyrir.
Mælingar verða þó gerðar síðdegis í dag, segir hann og von á niðurstöðum í kvöld. Þá verður jafnframt hægt að greina frá nýjustu tölum er varðar stærð hraunsins og hraunflæði.