Mikil gliðnun hefur mælst innan bæjarmarka Grindavíkur. Hefur gliðnunin mælst allt að 1,4 metrar síðasta sólarhringinn, en dreifist það yfir margar sprungur. Nýjar sprungur hafa myndast og eldri opnast meira.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að nýjar sprungur geti komið í ljós á næstu dögum.
Dregið hefur úr krafti eldgossins að mati sérfræðinga og sést það vel á vefmyndavélum. Hraunflæði upp úr gossprungunum sem opnuðust í gær hefur minnkað. Ekkert hraunstreymi er lengur úr syðri sprunginni.
Skjálftavirkni hefur minnkað og samkvæmt GPS mælingum dregur úr hreyfingum á svæðinu. Áfram mælast þó hreyfingar syðst í kvikuganginum undir Grindavík.
Í tilkynningunni segir að ekki sé hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara og því séu gosstöðvarnar mikið hættusvæði.
Engin merki sáust á mælitækjum þegar sprungan við bæjarmörk Grindavíkur opnaðist í gær.
Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort. Kortið er óbreytt frá því síðast og gildir til miðvikudagsins 17. janúar, kl. 17 að öllu óbreyttu.
Myndskeiðið hér að ofan tók Hörður Kristleifsson.