Myndir og myndskeið: Eyðilegging til allra átta

Þær náttúruhamfarir sem heimanflúnir Grindvíkingar hafa mátt horfa upp á síðustu mánuði eiga sér vart hliðstæðu á íslenskum mælikvarða, hvað tjón snertir, nema farið sé aftur til ársbyrjunar 1973 er Vestmannaeyingar fengu yfir sig hraunstraum sem engu eirði.

Meðfylgjandi myndir og myndskeið sýna – þótt ekki sé nema að takmörkuðu leyti – þann eyðileggingarmátt sem íslensk náttúra býr yfir samhliða ægifegurð sinni.

Síðustu tveir sólarhringar hafa reynst Grindvíkingum þungir í skauti og hafa fjölmargir þeirra rætt við Morgunblaðið og mbl.is, að ógleymdum erlendum miðlum sem birt hafa viðtöl við íbúa á svæðinu sem eðlilega segja sínar farir ekki sléttar eftir gosið sem hófst snemma í gærmorgun.

Myndefnið tóku þeir Eggert Jóhannesson og Kristinn Magnússon, ljósmyndarar Morgunblaðsins og mbl.is, og Hörður Kristleifsson, sem náði myndskeiðunum úr lofti með dróna.

Hraun rann inn í Grindavík í gær og yfir íbúðarhús …
Hraun rann inn í Grindavík í gær og yfir íbúðarhús í bænum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Biksvart hraunið fer ekki á milli mála þar sem það …
Biksvart hraunið fer ekki á milli mála þar sem það liggur innan um húsin nyrst í bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ofboðslegt áfall

Eitt fyrsta húsið sem varð glóandi hraunstraumi að bráð í gær var Efrahóp 16 sem var heimili þeirra Unndórs Sigurðssonar, Birnu Ýrar Skúladóttur og þriggja barna þeirra, fjögurra, átta og fjórtán ára gamalla.

Sagði Unndór í samtali við mbl.is að því fylgdu vægast sagt blendnar tilfinningar að fylgjast með brennandi húsi sínu í beinni útsendingu fjölmiðla.

„Þetta er nokkuð sem maður nær ekki utan um alveg strax. Þetta er ofboðslegt áfall sem verður nokkurn tíma að sunka inn í sálarlífið,“ sagði Unndór við mbl.is.

Götur Grindavíkur hafa látið á sjá eftir hamfarir síðustu daga.
Götur Grindavíkur hafa látið á sjá eftir hamfarir síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hraunstaflar ná íbúðarhúsunum að hæð við norðurenda byggðarinnar í Grindavík. …
Hraunstaflar ná íbúðarhúsunum að hæð við norðurenda byggðarinnar í Grindavík. Þrjú húsanna hafa þegar orðið hrauninu að bráð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dálítið beygð

„Fólki er mjög brugðið – því er enn og aft­ur kippt inn í þetta áfall. Því miður áger­ist þetta bara og verður erfiðara og erfiðara,“ sagði séra El­ín­borg Gísla­dótt­ir, sókn­ar­prest­ur í Grinda­vík, við mbl.is.

Kvaðst hún sjálf vissulega vera hluti þess hóps sem hún vísaði til og játaði að vonin væri ekki sterk þessa dagana.

„Við erum dálítið beygð,“ sagði sóknarpresturinn og bætti því við að einmitt þess vegna hefðu bæjarbúar gripið það tækifæri fegins hendi að koma saman en samverustundir voru haldnar í Hafnarfjarðarkirkju og Keflavíkurkirkju síðdegis í dag.

Björguðu vélum fyrir tæpan milljarð

Þröstur Kjaran Elísson sagði mbl.is af sérstakri aðgerð er átti sér stað eldsnemma morguns í gær, á fyrstu tímum gossins hlupu þeir fimm saman félagarnir upp á austasta varnargarðinn við Grindavík og óku þaðan fjölda vinnuvéla, þar af nokkrum stærstu jarðýtum landsins sem notaðar hafa verið við varnargarðaframkvæmdirnar.

Játaði Þröstur fúslega að þeim björgunarmönnum hefði verið vel hlýtt meðan á aðgerðinni stóð en þeir komu öllum vélunum niður að Grindavíkurafleggjara þar sem þær voru óhultar fyrir frumkröftum úr iðrum jarðar. Sagði Þröstur að milljónatjón á vélunum hefði ef til vill ekki verið það versta – sá tími sem það tæki að panta nýjar hefði hins vegar sett verulegt strik í reikning eigendanna, allt að einu ári.

Skemmdir eru víða og ljóst að bæst hefur til muna …
Skemmdir eru víða og ljóst að bæst hefur til muna við það tjón sem varð í hamförunum í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hraunið nam staðar eftir að hafa lagt þrjú íbúðarhús í …
Hraunið nam staðar eftir að hafa lagt þrjú íbúðarhús í rúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill munur frá í gær

Marteinn Þórdísarson björgunarsveitarmaður hefur verið við björgunarstörf síðan um fermingu. Hann sagði gosið mun minna um sig í dag en í gær.

„Það er mik­ill mun­ur frá því í gær og gosið virðist hægt og bít­andi vera að deyja út og það von­um við svo sann­ar­lega,“ sagði Marteinn við mbl.is og greindi í sama viðtali frá því að hópur fjölmiðlafólks sem fylgdist með gosinu stækkaði hratt. Í gær hefði sextán bifreiðum með fólki úr þeirri starfsgrein verið fylgt að gossvæðinu en í dag hefðu þær verið á þriðja tug.

Það geng­ur allt mjög vel og þetta fyr­ir­komu­lag virðist vera að virka,“ sagði Marteinn.

Ekki daglegt brauð Norðmanna

Meðal fjölmiðlafólks var hin norska Juni Hordvin Johnsen frá TV2 í Noregi er kom til landsins ásamt tökumanni sínum.

Kvað hún gosið tilkomumikla sjón þótt það hefði ekki verið kröftugt. Þessu ættu Norðmenn ekki að venjast og mikið rétt, jarðskjálftar og eldgos eru mjög fjarri hinum daglega raunveruleika Norðmanna sem tengist snjóflóðum, aurskriðum, grjóthruni og flóðum í ám og vötnum órofa böndum. 

Hafa Norðmenn þó upplifað nokkurn fjölda skjálfta yfir fimm stigum á Richter og má þar nefna 5,8 stiga skjálfta í Nordland-fylki 31. ágúst 1819 og 5,4 stiga skjálfta í Óslóarfirðinum 23. október 1904.

Maður féll ofan í sprungu við íbúðarhús í Grindavík í …
Maður féll ofan í sprungu við íbúðarhús í Grindavík í síðustu viku, ekki langt frá þeim stað þar sem hraun hefur nú runnið inn í bæinn. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson
Gengið um Grindavíkurbæ í dag. Sprungur setja svip sinn á …
Gengið um Grindavíkurbæ í dag. Sprungur setja svip sinn á undirlagið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna að nýrri lögn

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Þorbjarnar hf., kvaðst í dag vongóður um að Grindvíkingar fengju um síðir að snúa aftur til bæjarins.

„[...] Plássið er tals­vert laskað og það þarf að at­huga ör­yggið, sér­stak­lega þar sem sprung­urn­ar eru,“ sagði Gunn­ar og kvaðst vita til þess að almannavarnir og sveitarfélagið ynnu í því þarfaþingi að fá flokk pípulagningarmanna til að fara um bæinn og tryggja að ekki yrði stórtjón í húsum sem ekki væru frostklár.

Hraunbreiðan sker Grindavíkurveg í sundur þar sem hann liggur fyrir …
Hraunbreiðan sker Grindavíkurveg í sundur þar sem hann liggur fyrir ofan bæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Sprungur og skemmdir metnar í Grindavík í dag.
Sprungur og skemmdir metnar í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Siðferðislegar hliðar útsýnisflugs

Sitt sýnist hverjum um siðferðishliðina á því að bjóða upp á útsýnisflug og hefur mátt lesa yfirlýsingar flugmanna hvað þetta snertir á samfélagsmiðlum auk þess sem talsmenn fyrirtækja, er slíka þjónustu bjóða, hafa rætt við fjölmiðla.

„Hugur okkar og hjörtu eru hjá frábæra fólkinu í Grindavík á þessum erfiðu tímum,“ sagði í tilkynningu HeliAir Iceland sem enn fremur kvað útsýnisflug sem gengi út á að sjá heimili fólks verða hrauni að bráð væri ekki það sem fyrirtækið áliti viðskiptatækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert