Norðurflug flýgur ekki yfir Grindavík

Mynd úr safni af eldgosinu í Geldingardölum.
Mynd úr safni af eldgosinu í Geldingardölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þyrlufyrirtækið Norðurflug hefur ákveðið að þyrlur á þeirra vegum fljúgi ekki að Grindavíkurbæ. Það útsýnisflug sem farið verður á svæðinu mun einungis fara norðanmegin við varnargarða.

Jón Kjartan Björnsson, yfirflugmaður hjá Norðurflugi, segir í samtali við mbl.is að á meðan það sé sprunga sem veldur slíkum hamförum þá sé ekki spennandi fyrir fyrirtækið að bjóða upp á útsýnisflug.

„Við munum því ekki fljúga yfir Grindavík, það er alveg skýr ákvörðun okkar megin,“ segir Jón. 

Hafa fengið fyrirspurnir um útsýnisflug

Að sögn Jóns hefur fyrirtækið fengið þó nokkrar fyrirspurnir um útsýnisflug um gosið. Það hafi þó verið tekin sú ákvörðun að staldra við og ekki fara í neina túra í gær.

„Við förum með þessa fáu sem eru búnir að bóka hjá okkur norðanmegin við gosið," bætir Jón við. 

Einnig hefur fyrirtækið átt samtöl við önnur fyrirtæki sem bjóða upp á útsýnisþyrluferðir. Þar voru allir sammála um að ferðir yfir Grindavík væri ekki eitthvað sem fyrirtækin vilja bjóða upp á.

Að lokum bætir Jón við að „hlutirnir breytast með hverjum deginum þannig við erum bara að meta stöðuna eftir því."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert