„Nú er þetta allt farið og innbúið líka“

Að minnsta kosti þrjú hús urðu hrauninu að bráð í …
Að minnsta kosti þrjú hús urðu hrauninu að bráð í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitt allra fyrsta húsið sem fór undir hraun í gær var Efrahóp 16, hvar bjuggu Unndór Sigurðsson, Birna Ýr Skúladóttir og börnin þeirra þrjú: 4, 8 og 14 ára.

„Því fylgja vægast sagt blendnar tilfinningar að fylgjast með beinni útsendingu í sjónvarpi og sjá heimili sitt brenna. Þetta er nokkuð sem maður kannski nær ekki utan um alveg strax. Þetta er ofboðslegt áfall sem verður nokkurn tíma að sunka inn í sálarlífið,“ segir Unndór.

Skildum nánast allt eftir

Fjölskyldan flutti inn í nýbyggt húsið við Efrahóp árið 2017 og hefur átt þar góða tíma. „Síðustu árin hefur maður tekið í lokafrágang á húsinu. Nú er þetta allt farið og innbúið líka. Við skildum nánast allt eftir þegar Grindavík var rýmd í nóvember, svo við erum núna bara með fötin okkar og þetta allra nauðsynlegasta,“ segir Unndór um líf fjölskyldunnar sem nú hefur aðsetur í tveggja herbergja íbúð í Njarðvík.

„Já, ég veit um fólk í Grindavík sem nú er komið nærri því að gefast upp í þessum hrikalegu aðstæðum. Og slíkt er nokkuð sem ég hef alveg fullan skilning á. Sjálfur ætla ég þó að halda áfram að berjast. Ég er gegnheill Grindvíkingur, finnst hvergi betra að búa og vonandi lýkur þessum ósköpum fyrr en síðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert