Ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að tryggja heitt vatn aftur til Grindavíkur. Vonir eru bundnar við að ný vatnslögn til bæjarins, í eigu HS Veitna og HS Orku, muni virka.
Þetta segir Sigrún Inga Ævarsdóttir, upplýsingafulltrúi HS Veitna, í samtali við mbl.is.
„Það var búið að leggja nýja heitavatnslögn að Grindavík, verkinu var ekki alveg lokið, og gamla lögnin er sú sem hefur orðið fyrir töluverðum skemmdum. Nú er sem sagt verið að kanna hvort að það sé hægt að koma heitu vatni í gegnum nýju lögnina,“ segir Sigrún.
Eins og greint hefur verið frá þá er allt heitavatnslaust í Grindavík eftir að lögnin rofnaði.
Hún segir að í þessum töluðum orðum sé verið að vinna í því að prófa lögnina.
Hvort að hægt verði að koma heitu vatni til bæjarins eða ekki, fer eftir því hvort að nýja lögnin virki. Ekki er hægt að segja til um hvenær heitt vatn kemur til bæjarins fyrr en búið að er kanna virkni nýju lagnarinnar.
„Stofnlögn er eitt og svo er dreifikerfið annað. Þetta þarf allt að virka vel saman svo að það komi aftur hiti á húsin í Grindavík,“ segir Sigrún.
Spáð er frosti næstu daga og því gæti fylgt mikið tjón í húsum fólks ef það frýs í lögnum. Sigrún segir að HS Veitur geri sitt besta til að meta lagnirnar sem eru í Grindavík.
„Það skýrist mjög margt þegar við vitum hvort að þessi nýja lögn komi til með að skila vatni eða ekki, því þá getum við unnið með það – upp á að tengja það við dreifikerfið og meta leka í dreifikerfinu í Grindavík og svo framvegis,“ segir Sigrún.