Setja aukinn kraft í stuðninginn

Almannavarnir héldu upplýsingafund í gær.
Almannavarnir héldu upplýsingafund í gær. mbl.is/Óttar

„Við höfum boðað það áður að við myndum halda áfram húsnæðisstuðningi og nú er ljóst að við þurfum að halda áfram stuðningi við afkomu fólks. Það er alveg ljóst að staða þess verður áfram í mikilli óvissu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Rætt var við hana að loknum upplýsingafundi almannavarna, sem fram fór í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í gærkvöldi. Ríkisstjórnin mun funda í dag og eru eldsumbrotin við Grindavík eina málið á dagskrá fundarins.

„Við munum setja aukinn kraft í að tryggja framboð af húsnæði með því að kaupa og leigja íbúðir fyrir Grindvíkinga, því staðan í húsnæðismálunum er óviðunandi fyrir þá. Það er einnig frumvarp á leiðinni um stuðning við fyrirtækin í Grindavík, þannig að við erum að gefa í okkar aðgerðir.

Við ætlum líka að setja aukinn kraft í sálfélagslegan stuðning, því kannski er áfallið fyrst að koma fram núna fyrir alvöru,“ segir Katrín og bætir því við að stuðningur við Grindvíkinga verði aukinn í takti við yfirstandandi atburði í bænum.

Mikil óvissa í gangi

Kemur til greina að opinberir aðilar leysi húseignir Grindvíkinga til sín í ljósi þess að tæpast verður búið í Grindavík á næstu mánuðum?

„Nú er það svo að við vorum komin mjög langt í mati Náttúruhamfaratrygginga á því tjóni sem þá var orðið í bænum. Það sem fyrir liggur er að taka ákvarðanir um það hvar má byggja og hvar ekki. Það mál var í ferli. Síðan gerðist þetta og eðlilega hefur það áhrif á þá vinnu. Ég ætla ekki að segja í dag hvenær niðurstaða verður komin í hana,“ segir Katrín.

Tilkynnt var á laugardag að Náttúruhamfaratrygging Íslands hefði stöðvað mat á tjóni í Grindavík, unnið hefur verið að því að meta það frá því jarðhræringarnar urðu sem ollu miklu tjóni á húseignum og innviðum í bænum. Var þessi ákvörðun tekin í framhaldi af því að maður féll ofan í sprungu í bænum.

„Við erum á þeim stað núna að það er mikil óvissa í gangi, en við viljum taka slaginn fyrir Grindavík. Við sjáum að varnargarðarnir sem nú eru komnir í hálfa hæð eru að bera árangur, þó við höfum ekki stjórn á þessari sprungu sem opnaðist við bæinn,“ segir Katrín, en umrædd sprunga er innan við varnargarðinn sem komið hefur verið upp utan við bæinn.

„Við viljum standa með þessu bæjarfélagi og þeirri sögu sem þar hefur verið allt frá landnámsöld. En nú erum við að fara inn í annan fasa. Eins og jarðvísindamenn hafa bent á í dag þá kann að hægjast hratt á gosinu, en við vitum það ekki. Augljóslega kallar þessi staða á nýtt mat af hálfu Náttúruhamfaratrygginga á tjóninu í bænum,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert