Tækin sem björguðust um 800 milljóna króna virði

„Við vorum mættir um fjögur um nótt og vorum búnir að vera í 90 mínútur að horfa á gosið og skoða þetta. Það vill þannig til að tveir í þessum hópi eru vanir björgunarsveitarmenn.

Annar þeirra var sendur upp í þyrlu til að meta aðstæður, hraunrennsli og átta sig á þessu – sérfræðingur í þessu.

Í kjölfarið áttuðum við okkur á því að það væri gluggi þarna fyrir okkur. Við skipulögðum okkur vel og fórum þarna inn í litlum hópum og þetta gekk eins og í sögu í sjálfu sér.“

Þetta segir Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja og staðarstjóri hjá Ístaki við gerð varnargarða á Reykjanesskaga, í samtali við mbl.is.

Hlupu í átt að hraunbreiðunni

Margir sem fylgdust með beinu streymi frá gosstöðvunum norður af Grindavík í gærmorgun ráku eflaust upp stór augu þegar bíla dreif skyndilega að og menn hlupu í átt að hraunbreiðunni til að bjarga þar vinnuvélum, sem sumar hverjar voru á milli tveggja hrauntunga.

„Við vorum átta á staðnum. Þrír sem vorum að stýra þessu en hinir fimm fóru til skiptis og sumir fóru tvisvar inn,“ segir Hjálmur en hópurinn fór fjórar ferðir og bjargaði á annan tug vinnuvéla, meðal annars stærstu jarðýtu landsins.

Skjáskot frá einni af vefmyndavélum mbl.is sýnir menn hlaupa í …
Skjáskot frá einni af vefmyndavélum mbl.is sýnir menn hlaupa í átt að hraunbreiðunni, tækjunum til bjargar. mbl.is

„Við vorum með aðkomuveg að þessu svæði og þekktum aðstæður mjög vel. Björgunarsveitarmennirnir tveir tóku að sér að vera vaktmenn, annar niðri við ljósamastrið, sem síðar brann þarna á planinu, og hinn fór upp á garðinn. Þeir voru með gasmæla og vöktuðu svæðið.

Við sendum svo þrjá menn þarna inn í einu í samráði við vaktmennina. Eftir að við vorum búnir að sækja fyrstu tækin, sem voru næst hrauninu, þá sáum við raunverulega að þetta var gerlegt með góðu skipulagi og góðum mönnum.

Við ætluðum bara að sækja þrjár vélar í upphafi en svo var vindátt mjög hagstæð og aðstæður nokkuð góðar – þetta gekk vel svo við sóttum allt.“ Segir Hjálmur að hópurinn hafi sótt 14 eða 15 tæki alls í þessum fjórum ferðum.

Þurftu tækin til að reyna að bjarga bænum

Verðmæti tækjanna er eins og gefur að skilja þó nokkuð. Hjálmur telur verðmæti þeirra vera í kringum 800 milljónir en segir að ekki hafi verið horft í það heldur að komast að tækjunum sem hópurinn þurfti ef bjarga ætti Grindavík.

„Þetta eru stórar jarðýtur og stórar gröfur. Svo vorum við með það sem við köllum búkollur sem eru svona efnistrukkar.

Þarna er stærsta jarðýta landsins – það er ein slík jarðýta til. Þetta hreyfir alveg gríðarlega mikið. Við erum að flytja mikið efni hér á hverjum degi og erum búnir að gera undanfarið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hættan hefði aukist með tímanum

Hjálmur segir að það hafi verið metið sem svo að hættan myndi aukast hratt ef beðið yrði lengur. Segir hann að sprungur séu þekktar á svæðinu og að hópurinn hafi vitað hvar þær væru og að það væri ekki sérstök hætta á svæðinu ef ráðist yrði í aðgerðina strax.

Segir hann mikilvægt að hafa komist að þessum öflugustu tækjum landsins ef það hefði átt að gera eitthvað á svæðinu.

„Eins og til dæmis að loka þessu skarði í Grindavíkurgarðinum sem hefur svo haldið að mestu leyti.“

Frá vettvangi í gærmorgun.
Frá vettvangi í gærmorgun. Ljósmynd/Þröstur Kjaran Elísson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert