Talsvert frábrugðið síðasta eldgosi

Eldgosið við Grindavík sem hófst í gærmorgun.
Eldgosið við Grindavík sem hófst í gærmorgun. mbl.is/Árni Sæberg

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur að eldgosið sem hófst við Grindavík í gærmorgun standi ekki yfir í langan tíma, „en það getur gerst ýmislegt þó það standi ekki yfir í langan tíma“.

Er blaðamaður ræddi við Ármann voru um tólf klukkustundir frá því að eldgosið hófst. Hann segir hafa dregið úr því heldur hægar en hann hefði viljað og að gossprungan sem opnaðist nær Grindavík sé „alveg ótrúlega dugleg“.

Hann segir að eldgosið sé talsvert frábrugðið gosinu sem hófst 18. desember. Það hafi verið kröftugra og verið fljótara að slá af. „Í þessu gengur verr að koma kvikunni upp sem gerir það að verkum að það tekur aðeins lengri tíma að slá á gosið.“

Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Dregur kannski hægar úr því

Ármann segist ekki telja að fleiri gossprungur eigi eftir að myndast. Kerfið þurfi tími til að hlaða sig aftur eftir að hafa losað um þrýsting.

Lítur kvikumagnið út fyrir að vera minna?

„Já, það er alveg allt að fjórum sinnum minna heldur en var þegar að það [eldgosið 18. desember] byrjaði. En það dregur kannski aðeins hægar úr því. Þannig að þetta getur svo sem endað með álíka kvikumagni eða eitthvað aðeins meira,“ segir Ármann og bætir við að þó eigi eftir að koma í ljós hve mikil kvikan verður.

Ármann segir það samt vera ánægjulegt að sjá að varnargarðurinn norður af Grindavík hafi gegnt sínu hlutverki að mestu. „Allt þetta hraun sem rennur með garðinum og í áttina að Þorbirni hefði farið niður í þorp ef að garðurinn hefði ekki verið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert