„Þetta er bara að fara með fólk“

Stóísk ró Íslendinga í eldgosum. Synirnir láta fara vel um …
Stóísk ró Íslendinga í eldgosum. Synirnir láta fara vel um sig í sófanum á meðan rauður loginn brennur úti fyrir glugganum í gosinu í mars 2021. Ljósmynd/Sólný Ingibjörg Pálsdóttir

„Ég bý við þessa götu, í hornhúsi austan megin,“ segir Sólný Ingibjörg Pálsdóttir ljósmyndari í samtali við mbl.is, borinn og barnfæddur Grindvíkingur sem fylgist nú með gangi mála í sínum heimabæ milli vonar og ótta á meðan hún horfir á hús nágranna sinna brenna í þeim náttúruhamförum sem nú steðja að bænum.

Sólný býr í húsi sem þau fjölskyldan gáfu nafnið Mánahraun og fékk raunar á sig nokkra slagsíðu í jarðskjálftunum sem hámarki náðu 10. nóvember í fyrra en húsið hallar nú töluvert eftir að sprunga sem skipti húsnæði elliheimilis bæjarins í tvennt teygði sig að Mánahrauni og olli tjóni á sólpalli er við það er byggður auk þess sem einhverjar sprungur komu í húsið sjálft sem er með tvöfaldri járnabindingu.

Sólný og fjölskylda eru ýmsu vön þegar kemur að náttúruhamförum …
Sólný og fjölskylda eru ýmsu vön þegar kemur að náttúruhamförum enda hefur ekki ríkt nein lognmolla í nágrenni þeirra síðustu árin. Ljósmynd/Sólný Ingibjörg Pálsdóttir

Sjö Grindvíkingar gistu í nótt

Sólný á sér stóra fjölskyldu sem nú er komin í var, þó ekki á einum og sama staðnum, en þau hjónin leigja með tvö barna sinna í Urriðaholti og eru þar með öruggt húsnæði fram á vor.

„Við byrjuðum í bústaðnum, fórum svo til systur mannsins míns, svo í þessa íbúð sem við þurftum að tæma fyrir jólin, þá fengum við lánsbústað, og svo aftur hingað en erum nú komin með fasta þrjá mánuði hér, við erum bara búin að búa í ferðatösku þangað til núna,“ lýsir Sólný.

Tilvera fjölskyldunnar, eins og líklega allra Grindvíkinga, um þessar mundir er öðruvísi. Sonur Sólnýjar fagnaði fjórtán ára afmæli sínu í gær, laugardag, og hélt upp á það, „svo hér voru sjö Grindvíkingar í heimsókn og gistu í nótt“, segir ljósmyndarinn frá.

„Tveir elstu synir mínir búa líka í Grindavík svo við erum að leigja á þremur stöðum,“ segir Sólný en annar sonanna, Guðjón Sveinsson, eignaðist barn aðeins fimm dögum eftir mestu ósköpin í nóvember og ræddi þá við mbl.is.

„Það sem brennur mest á manni núna eru þessi húsnæðismál. Við fundum svo rosalegan létti við það að vera komin með öruggt fram á vorið. Ofan á það er ekkert grín fyrir venjulegar fjölskyldur að vera að reka tvö heimili. Þetta hefur svo miklu víðtækari áhrif en margir gera sér grein fyrir,“ segir Sólný.

Margar stórfjölskyldur búa í Grindavík enda segir Sólný ekki óalgengt …
Margar stórfjölskyldur búa í Grindavík enda segir Sólný ekki óalgengt að börn snúi aftur þangað eftir að hafa áður flutt að heiman. Ljósmynd/Sólný Ingibjörg Pálsdóttir

Sonurinn missti sjálfstæðið

Eitt sé fjárhagslegt öryggi en annað börn, skóli og fjölskylda.

„Í Grindavík eru margar stórfjölskyldur, ættir sem teygja sig langt aftur í tímann í búsetu, börnin fara að heiman og koma svo aftur til baka. Þessar fjölskyldur eru núna splundraðar úti um allt, í sumarbústöðum, á Selfossi og víðar svo ekki sé minnst á allar daglegar athafnir, fólk er í björgunarsveitum og kór og ég veit ekki hvað og heimilið er grunnöryggi þitt. Allir sem hafa búið úti á landi vita hvað ég er að tala um,“ segir Sólný með þunga og bætir því við að íbúar Grindavíkur hafi gengið í gegnum ýmislegt síðustu fjögur árin.

Eins sé breytingin mikil fyrir börn sem fengið hafi inni með fjölskyldum sínum á höfuðborgarsvæðinu að búa skyndilega í borg, „sérstaklega fyrir strákinn minn sem er með Downs-heilkenni, hann missti í rauninni bara sitt sjálfstæði,“ segir Sólný frá.

Aðspurð kveður hún yndislegt skólasamfélag Salaskóla þó hafa gripið drenginn svo af honum sé allt meinhægt.

„Hann fær frábæra kennslu og þjónustu frá Kópavogsbæ en sjálfstæði eftir skóla og allt sem þú hefur í svona litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla [er horfið á braut]. Maður hafði engar áhyggjur af honum suður frá, en hann fer ekkert að skottast einn hérna í Urriðaholtinu,“ nefnir Sólný sem eitt dæmi um breytta tilveru í kjölfar náttúruhamfara á Reykjanesskaga. Drengurinn blómstri hins vegar í skólanum.

„Þetta er svo mikil sorg. Þó að fólk segi að …
„Þetta er svo mikil sorg. Þó að fólk segi að nú þurfi það bara að byggja upp líf annars staðar hefur það ekkert haft tök á því heldur af því að það er bara fast með húsin sín í Grindavík.“ Ljósmynd/Sólný Ingibjörg Pálsdóttir

Símtöl austan af fjörðum

Hún kveður íslensk stjórnvöld verða að átta sig á því grundvallaratriði sem öruggt húsnæði sé íbúum Grindavíkur í því ástandi sem nú þyngir þeim. „Þetta er grunnurinn að því að við komumst heil út úr þessu, það er bara sparnaður við heilbrigðiskerfið og gróði fyrir alla að tryggja okkur öryggi og húsnæði af því að þetta er bara að fara með fólk. Öruggt skjól er grunnþörfin okkar,“ segir Grindvíkingurinn.

Hún kveðst ákaflega hrærð yfir þeim stuðningi sem þjóðin hafi sýnt Grindvíkingum á ögurstundu.

„Ég er búinn að fá símtöl alla leið austan af fjörðum í dag og fólk virkilega stendur með okkur. Það gefur okkur óendanlega mikið að finna þennan stuðning, til dæmis í þessum húsnæðismálum. Við erum kannski bogin en við erum ekki brotin, við erum sjómenn og við náum alltaf landi þótt gefi á bátinn,“ segir Sólný full þakklætis.

Kveðst hún hafa setið grátandi við sjónvarpið áður en mbl.is náði tali af henni og horft á hús nágrannanna brenna.

„Þetta er svo mikil sorg,“ segir hún.

„Þó að fólk segi að nú þurfi það bara að byggja upp líf annars staðar hefur það ekkert haft tök á því heldur, af því að það er bara fast með húsin sín í Grindavík. Húsið mitt er skemmt og hallar, það er fimmtán sentimetra halli á gólfinu frá vestri til austurs, það er bara brekka,“ lýsir Sólný.

„Þessi var tekin heima af mér, elsta syni mínum og …
„Þessi var tekin heima af mér, elsta syni mínum og eiginmanni þegar við vorum að sækja dót eftir rýminguna 10. nóvember.“ Ljósmynd/Raul Moreno

„Ef Grindavík verður aftur búsetuhæf flyt ég fyrst manna þangað aftur, en ég geri það ekki nema ég sé að fara inn í öruggar aðstæður,“ segir hún í framhaldinu.

„Ef það er hægt að tryggja mér og börnunum mínum öryggi fer ég heim. Ef ekki þá bara byggi ég upp líf annars staðar en draumurinn er að við getum endurbyggt þennan bæ þótt það taki tíma. Það skýrist bara núna alveg á næstunni hvernig það verður,“ segir Sólný Ingibjörg Pálsdóttir, ljósmyndari og Grindvíkingur í húð og hár, að lokum úr íbúð í Urriðaholti þar sem hún og fjölskyldan eru óhult næstu þrjá mánuðina.

Lengra tjóir ekki að hugsa í bili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert