Mikið tjón blasir við í Grindavík. Að minnsta kosti þrjú hús við götuna Efrahóp í Grindavík fóru undir hraun í gær í kjölfar þess að sprunga opnaðist nokkrum tugum metra frá götunni.
Þá greindu HS Veitur frá því í gærmorgun að bæði væri rafmagns- og hitavatnslaust í Grindavík.
Sigrún Inga Ævarsdóttir, samskiptastjóri HS Veitna, segir greiningarvinnu standa yfir hjá fyrirtækinu á tjóninu sem hlaust af völdum gossins og jarðhræringunum í gær.
Aðspurð segist hún ekki geta sagt til um hvert umfang tjónsins sé á þessu stigi en það kunni að skýrast betur í dag. Hún bendir á að við séum enn í miðri atburðarásinni.
Veðurspá næstu daga bendir til þess að frost verði víðs vegar á landinu og meðal annars í Grindavík. Gangi þær spár eftir gæti það leitt til mikils tjóns á lögnum húsa takist ekki að koma hita aftur á í bænum.