Vinna við varnargarðana sem verja eiga Grindavíkurbæ heldur áfram inn í nóttina þrátt fyrir jarðeldana sem geisa á svæðinu.
Rúmlega 30 menn frá fimm verktökum vinna á tveimur 11 tíma löngum vöktum á sólarhring.
Hjálmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja og staðarstjóri hjá Ístaki við gerð varnargarða á Reykjanesskaga, segir í samtali við mbl.is að eftir að tekist hafði að bjarga vinnuvélum frá hraunbreiðunni norðan við bæinn í morgun hafi mannskapurinn farið í að loka skarði sem var opið í görðunum.
„Við vorum þarna til tvö. Þá rýmdum við svæðið vegna yfirvofandi hættu. Þá kom aðeins [hraun] yfir [garðinn] og svo fórum við aftur inn um fjögurleytið og gerðum varagarð fyrir neðan sem við erum að klára núna.“
Þá segir hann að vinnu við varnargarða verði fram haldið vestur fyrir Grindavík. Hraunflæðinu verði fylgt.
Segir Hjálmar vinnuna fram undan verða skipulagða eftir því hvernig hraun muni streyma.
„Það er náttúrulega búið að herma þetta, þannig að við vitum svona nokkurn veginn hvað við ætlum að gera en menn fylgja bara atburðinum eins og hann er.“
Spurður hvort vinnan sé hættuleg segir hann stærstu hættuna talda liggja í gasmengun.
„Það eru allir menn með gasgrímur og gasmæla og þess háttar. Menn eru ekki að ganga mikið úti á víðavangi þarna þar sem við þekkjum ekki svæðið út af sprunguopnunum og þess háttar heldur eru menn á stórum tækjum sem fara nú ekki auðveldlega ofan í sprungur.“
„Þetta eru krefjandi aðstæður og maður þarf að passa að ákvarðanir séu teknar sem eru ekki að setja menn í hættu.
Gosopnun er klárlega hætta en við treystum svolítið þessum vísindamönnum sem eru að vinna með okkur – að við séum ekki settir í þessar aðstæður.“
Hjálmar segir rúmlega 30 menn frá fimm verktökum vinna á 11 tíma löngum vöktum þar sem tvær vaktir séu keyrðar á hverjum sólarhring, eins og áður sagði.
„Þetta eru mjög reyndir vélamenn hérna upp til hópa og að okkar mati margir af okkar öflugustu mönnum, en við þekkjum náttúrulega ekki alla. Þetta er mjög öflugur og samheldinn hópur.“