„Vonlaust framhaldið þegar heitavatnið er farið“

Hraunið sem rann inn í Grindavík í gær stöðvaðist rétt …
Hraunið sem rann inn í Grindavík í gær stöðvaðist rétt við hús Grétars og eiginkonu hans. Á myndinni er það tvískipta húsið fyrir miðju. Húsið við hliðina á var í eigu fósturdóttur hans og tengdasonar, en hraunið fór yfir það stuttu eftir að myndin var tekin áður en flæðið stöðvaðist. Grétar á um 30 kindur sem eru í Grindavík sem hann leggur mikla áherslu á að ná út sem fyrst. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Grétar Jónsson

„Ég skil ekki hvað varð þess valdandi að við sluppum.“ Þetta segir Grétar Jónsson, íbúi í Efrahópi, en hraunið sem rann inn í Grindavík stöðvaðist rétt við hús hans og eiginkonu hans. Hann segir hins vegar mjög sárt að sjá alla eyðilegginguna og tekur fram að fósturdóttir þeirra og tengdasonur hafi misst sitt hús sem var við hliðina á þeim.

Grétar segist auðvitað vilja vera bjartsýnn, en að hann sjái ekki annað en að framhaldið sé vonlaust með heita vatnið farið af bænum og skemmdir og eyðileggingu húsa framundan í frosthörku næstu daga.

Í gær og í nótt rann hraun úr syðri sprungunni á þrjú hús í Grindavík og brunnu þau öll. Um er að ræða Efrahóp 16, 18 og 19. Hins vegar stöðvaðist hraunflæðið rétt við hús 3 og 20, en í síðarnefnda húsinu búa þau Grétar og Þórlaug kona hans.

Beygði of seint ofan í lautina

Grétar lýsir því að í gær hafi hann horft á hraunið renna að húsunum og vonað að það færi niður í laut sem er vestan megin og á milli Efrahóps og Norðurhóps. Hraunið tók þó ekki að beygja þangað fyrr en það hafði farið yfir þrjú hús og eyðilagt þau.

Hann segist þó ekkert vita með ástand á húsinu sínu, enda hafi líklega verið gríðarlegur hiti af hrauninu sem gæti hafa valdið skemmdum. Hann segist einnig smeykur um að tveir bílar, sem eru fyrir utan húsið séu skemmdir vegna hitans, en vonar þó hið besta.

Þegar bærinn var rýmdur í fyrrinótt fór fjölskyldan af stað, auk ungmennis á heimilinu. Hann segir að bæði hafi verið svo mikil hálka að þau hafi ekki treyst sér að fara á mörgum bílum og þá hafi einnig verið betra upp á andlegu hliðina að fara saman í bíl.

Með 30 kindur í bænum sem hann vill sækja

Hann segist ekki vita hvað taki við og hvort hann eða aðrir íbúar fái að huga að eigum sínum í dag eða næstu daga. Hann hafi þó heyrt lögreglustjórann taka fyrir það í viðtali í dag að íbúar fengju að fara inn í bæinn í dag.

Segir hann það trufla sig og aðra að geta ekki hugað að eignunum en þó sé eitt sem sé mun verra og það sé sauðfé sem hann er með í húsi við höfnina. Hann hafði verið með stærstan hluta af sínu sauðfé í Selvogi undanfarið, en nýlega sótt 30 lömb til að vera með nær og geta fylgst betur með. Rýmingin og eldgosið hafi hins vegar komið nokkrum dögum síðar og því sé sauðféð enn í bænum, líkt og um 200 aðrar kindur hjá öðrum bændum.

Þrjú hús urðu hrauninu að bráð í gær.
Þrjú hús urðu hrauninu að bráð í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segist hafa verið viðbúinn því að þurfa mögulega að rýma með smá fyrirvara og því hafi hann verið með kerru undir sauðfé tilbúna við húsið, en að skyndirýmingin hafi orðið til þess að ekki hafi verið hægt að sækja neinar kindur.

Grétar, sem sjálfur er formaður sauðfjárfélagsins í Grindavík, segir að hann hafi látið yfirvöld vita af stöðunni en ekki enn fengið nein svör hvað hægt sé að gera. Segir hann að það myndi taka hann um 10 mínútur að sækja féð og koma því í kerru. Vonast hann til þess að ef hann fái ekki að fara inn á svæðið verði viðbragðsaðilum heimilað að sækja það, en í dag hefur mátt sjá björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila á ferð um bæinn.

„Finnst þetta vera hálfgerður skapadagur, endalok“

Spurður um framhaldið eftir þessar hamfarir segir Grétar að hann geti ekki verið bjartsýnn. „Það er bara vonlaust framhaldið þegar heitavatnið er farið og rafmagnið,“ segir hann. „Ég veit ekki hvernig þeir ætla að koma því aftur á,“ bætir hann við.

Segir hann svo margt geta gerst, hvort sem það séu sprungnar lagnir og vatnsskemmdir eða aðrar frostskemmdir á húsnæðinu. „Ég veit ekki hvaða leið þeir ætla að fara með heita vatnið. Þú leggur ekkert vestan frá Þorbirni á tveimur dögum.“

„Mér finnst útlitið mjög svart,“ segir Grétar aftur og vísar til þess að þó að fólk sé duglegt að berja honum og öðrum Grindvíkingum kjark í brjóst þá verði einnig að horfa raunsætt á stöðuna.  Ítrekar hann þar að hann sjái ekki fyrir sér hvernig eigi að vera hægt að koma hita aftur á húsin í bænum í tæka tíð og þar með verði lítið hægt að gera. „Mér finnst þetta vera hálfgerður skapadagur, endalok,“ segir hann.

„Þarna er eitthvað þar sem allt er að brotna“

Grétar spyr einnig hvað eigi að gera jafnvel þótt hægt verði að bjarga einhverju af innbúinu. „Hvert eigum við að setja dótið?“ Nefnir hann að þó margt í innbúinu sé hægt að fá aftur séu aðrir hlutir sem fólk hafi sterkar tilfinningar til. Nefnir hann til dæmis að hann eigi stórt fuglasafn á heimilinu.

Grétar er sjálfur úr Vopnafirði þar sem hann stundaði sauðfjárbústap til ársins 2009 þegar hann flutti í Grindavík, en Þórlaug er úr Grindavík. Segir hann að þótt staðan sé erfið fyrir sig sé hún mun verri fyrir konuna hans og aðra uppalda Grindvíkinga. Segist hann vera búinn að fara í gegnum sorgarferlið að einhverjum hluta og huga að tryggingamálum. Fyrir uppalda Grindvíkinga sé þetta hins vegar svo miklu meira og meiri sárindi vegna allra minninganna um heimaslóðirnar. „Það er öðruvísi. Þarna er eitthvað þar sem allt er að brotna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert