Fjárbændur í Grindavík vinna nú hörðum höndum að því að flytja fé sitt frá bænum í ljósi aðstæðna.
Blaðamaður mbl.is og ljósmyndari hafa verið á ferðinni á Reykjanesskaganum frá því snemma í morgun. Þeir rákust á nokkra bíla með kerrur í eftirdragi sem voru að koma frá Höfnum og voru að bíða eftir grænu ljósi frá björgunarsveitarmönnum til að komast í gegnum við lokunarpóst á svæðinu og sækja fé sitt.
„Við erum að ná í 30 kindur í fjárhúsi við Sjávarbraut og það er ánægjulegt að geta sótt þær. Það er búið að leggja mikið á sig til að ná í þær og fá til þess leyfi. Það gekk ekkert of vel að fá þetta leyfi en það kom á endanum,“ segir Viðar Guðmundsson við mbl.is.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði við mbl.is í morgun að á annað hundrað fjár séu í Grindavík og stefnt er á að flytja úr bænum í dag þar sem fyllsta öryggis verði gætt.