Ánægjulegt og óvænt miðað við aðstæður

Frá Grindavík í dag.
Frá Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinna við að koma rafmagni og hita á byggðina í Grindavík er í fullum gangi. Í gærkvöld tókst að koma rafmagni á vesturhluta bæjarins og í nótt hófst vinna við að hleypa heitu vatni inn á sama svæði.

„Það tókst að koma heitu vatni eftir nýju stofnlögninni sem liggur undir hraunið frá Svartsengi og inn til Grindavíkur og í framhaldinu fór heitt vatn að streyma inn í vesturhluta bæjarins,“ segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna við mbl.is.

Það rauk úr nýja hrauninu norðan við Grindavík í morgun.
Það rauk úr nýja hrauninu norðan við Grindavík í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki var hægt að klæða nýja vatnslögnina vegna anna við gerð varnargarða og því var óljóst hvort unnt væri að koma heitu vatni til bæjarins.

„Þetta var mjög ánægjulegt og í rauninni óvænt miðað við aðstæður. Það var engan veginn hægt að treysta því að þetta tækist en okkur fannst til þess vinnandi að reyna allt til að koma hita á bæinn,“ segir Páll.

Spurður út hvort hægt verði koma heitu vatni á austurhluta bæjarins segir hann:

„Við höfum verið í undirbúningi í morgun með almannavörnum hvernig hægt verði að standa að því og hvort það sé hægt því það svæði er lokað. Við erum núna að leggja drög að því að kanna hvað sé hægt að gera með einföldustum hætti til þess að reyna að koma hita á austurhluta bæjarins eða sem mest af honum,“ segir Páll en verkið unnið með aðstoð sérsveit ríkislögreglustjóra og annarra sérþjálfaðra viðbragðsaðila.

Kanna hvort hægt sé ná inn rafmagni á stærra svæði

Síðdegis í gær tókst að koma rafmagni á í vesturhluta Grindavíkurbæjar en stofnstrengurinn frá Svartsengi til Grindavíkur, sem fór að hluta til undir hraun, reyndist nothæfur eftir prófanir. Þær bilanir sem urðu við jarðhræringarnar í aðdraganda eldgossins sem hófst á sunnudaginn ollu því að ekki var mögulegt að koma rafmagni á allan bæinn.

„Það tókst að koma rafmagninu á í vesturhlutanum eftir strengjunum sem eru undir hrauni og núna er verið að skoða það hvort það sé einhver möguleiki á að ná rafmagni inn á stærra svæði í bænum,“ segir Páll Erland.

Í tilkynningu frá HS Veitum segir að ekki sé óhætt að ráðast í viðgerðir á veitukerfunum í bænum á næstunni. Það munu því ekki öll hús í Grindavík fá heitt vatn og rafmagn í þessum aðgerðum og tíminn þarf að leiða í ljós hver árangurinn verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert