Andlát: Friðleifur Stefánsson

Friðleifur Stefánsson tannlæknir lést á Landspítalanum 10. janúar síðastliðinn, níræður …
Friðleifur Stefánsson tannlæknir lést á Landspítalanum 10. janúar síðastliðinn, níræður að aldri. Ljósmynd/Aðsend

Friðleifur Stefánsson tannlæknir lést á Landspítalanum 10. janúar síðastliðinn, níræður að aldri.

Friðleifur fæddist 23. júlí 1933 á Siglufirði og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Stefán Friðleifsson verkamaður og Sigurbjörg Hjálmarsdóttir húsfreyja.

Friðleifur varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1954. Nam læknisfræði við Háskóla Íslands 1954-1955. Lauk fyrrihlutaprófi í tannlækningum frá Universität München 1959. Lauk prófi í tannlækningum (cand. odont) frá Freie Universität í Berlín 1962. Fékk tannlækningaleyfi 19. desember 1962. Friðleifur starfaði sem tannlæknir alla tíð í Reykjavík, að undanskildu einu ári, þegar hann starfaði sem tannlæknir í Ósló.

Friðleifur var mikill íþróttamaður frá unga aldri. Hann keppti á skíðum, í fótbolta, handbolta, hástökki, spjótkasti, langstökki og þrístökki og vann til ýmissa verðlauna. Badminton spilaði hann langt fram eftir aldri, þar sem hann varð m.a. Íslandsmeistari. Friðleifur var landsliðsmaður bæði í badminton og frjálsum íþróttum.

Hann starfaði mikið fyrir íþróttahreyfinguna, var m.a. í stjórn Badmintonsambands Íslands 1973-1979 og formaður badmintondeildar KR 1973-1977. Friðleifur var sæmdur gullmerki Íþróttasamband Íslands 1983, gullmerki KR 1994 og gullmerki Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur 2007.

Friðleifur var mikill KR-ingur og vann meðal annars við byggingu íþróttahúss KR. Hann var einnig mikill útivistarmaður og stundaði veiði af kappi. Friðleifur gekk til rjúpna, veiddi lax og silung í flestum ám og vötnum landsins og stundaði auk þess sjóstöng.

Eftirlifandi sambýliskona Friðleifs er Kristín Ástríður Pálsdóttir. Með fyrrverandi eiginkonum eignaðist hann sex börn. Með Lilju Gunnarsdóttur tvö, þau Hildi og Stefán, og með Björgu Juhlin Árnadóttur fjögur, þau Siv, Ingunni Mai, Árna og Friðleif. Barnabörnin eru 16 og barnabarnabörnin átta.

Útför Friðleifs fer fram frá Grafarvogskirkju mánudaginn 22. janúar nk. kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert