Einar stýrir nú borginni

Dagur B. Eggertsson afhendir Einari Þorsteinssyni lyklana að borginni.
Dagur B. Eggertsson afhendir Einari Þorsteinssyni lyklana að borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Þorsteinsson er tekinn við sem borgarstjóri Reykjavíkurborgar. Í ræðu sinni í ráðhúsinu í dag þakkaði Einar fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, fyrir samstarfið og störf síðustu ár.

Hann kvaðst hlakka til að þjóna borgarbúum úr stóli borgarstjóra.

Einar sagðist ekki alveg hafa gert sér grein fyrir hvað hann var að fara út í þegar hann bauð sig fram árið 2022. Það hafi hins vegar reynst einhverskonar óvissuferð sem hafi leitt hann á fallegar slóðir.

Hann sagði hagræðingaraðgerðir halda áfram undir hans stjórn og að markmiðið væri enn það sama, að rétta við fjárhaginn.

Einar Þorsteinsson og Heiða Björg Hilmisdóttir.
Einar Þorsteinsson og Heiða Björg Hilmisdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í starfi sínu sem borgarstjóri sagðist hann ætla að leitast við að leiða saman fólk og ólíkar skoðanir.

Hann nefndi nokkur mál sem hann taldi borgarstjórn, þvert á flokka, geta unnið að saman. Húsnæðismálin væru þar efst á blaði. Hann ræddi einnig um skólamálin og málefni barna. 

Einar sagði mikilvægt að hafa metnað fyrir því að vinna málin vel og leggja sig fram við að leita farsælla lausna fyrir sem flesta.

Árelía og Dagur taka við í borgarráði

Kosið var um nýjan borgarstjóra í dag og tillagan samþykkt. Einnig var kosið um breytingar á borgarráði. Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og Dagur taka við sætum Einars og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, í borgarráði. 

Þá var lagt til að Heiða og Magnea Gná Jóhannsdóttir, forseti borgarstjórnar, taki sæti sem varafulltrúar í ráðinu í stað Skúla Helgasonar og Árelíu. Var sú tillaga samþykkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert