Þorsteinn Einarsson, pípulagningameistari í Grindavík, segir að unnið sé í kapphlaupi við tímann að koma rafmagni og heitu vatni á í austurhluta Grindavíkur.
Fram kom í tilkynningu frá HS Veitum að takist hefði að koma hita og rafmagni á í vesturhluta Grindavíkurbæjar en um hádegisbilið hófust aðgerðir við að reyna að koma heitu vatni og rafmagni á austurhluta bæjarins.
Vegna hættulegra aðstæðna er verkið unnið með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra og annarra sérþjálfaðra viðbragðsaðila.
„Aðgerðirnar eru á vegum almannavarna og miða að því koma innviðum sem eru heilir aftur í virkni en ekki er óhætt að ráðast í viðgerðir á veitukerfunum í bænum á næstunni. Það munu því ekki öll hús í Grindavík fá heitt vatn og rafmagn í þessum aðgerðum og tíminn þarf að leiða í ljós hver árangurinn verður,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
„Það eru um 40 pípulagningarmenn að störfum í Grindavík í dag. Það er verið að fara yfir þau hús sem er búið að hleypa hita á en okkur vantar lykla að fullt af íbúðum til að komast inn í en það er verið að safna þeim,“ segir Þorsteinn við mbl.is.
Þorsteinn er að vinna við vatnsveituna og fráveitna í bænum og hann hefur verið í því frá að atburðirnir hófust.
„Þegar verið var að setja upp varnargarðana og loka veginum inn í Grindavík, þegar það gaus, tóku þeir í sundur nýju vatnslögnina og ég er að undirbúa viðgerð á henni,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að reyni eigi að hleypa hita inn á austurhluta Grindavíkur en lögnin fór í sundur í gosinu. Spurður um ástandið á lögnunum í bænum segir hann:
„Ég er búinn að fara inn í tvö hús sem eru búin að vera hitalaus síðan hitaveitan fór af og rafmagnið. Það er enn 14-15 gráða hiti í þessum húsum en við höfum ekkert langan tíma. Við höfum einn til tvo sólarhringa til viðbótar og erum því í kappi við tímann að koma rafmagni og heitu vatni á þá hluta sem eru í lagi,“ segir Þorsteinn.