Heitt vatn og rafmagn komið á flest hús Grindavíkur

Horft yfir byggðina í Grindavík í dag.
Horft yfir byggðina í Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heitt vatn og rafmagn er nú komið á Grindavík að mestu. Frá þessu greina HS Veitur í tilkynningu og taka fram að unnið hafi verið að því í dag að koma á heitu vatni og rafmagni í austurhluta bæjarins.

„Vegna hættulegra aðstæðna var verkið unnið með aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra og annarra sérþjálfaðra viðbragðsaðila og miðuðu aðgerðirnar að því að koma innviðum sem eru heilir aftur í virkni,“ segir í tilkynningunni.

Getur verið að hitakerfi hússins virki ekki

„Aðgerðin gekk vel en ljóst er að vegna skemmda á veitukerfum í bænum var ekki hægt að koma rafmagni og heitu vatni á öll hús í Grindavík. Í einhverjum tilfellum getur verið að hitakerfi hússins virki ekki þó hús sé að fá til sín heitt vatn.“

Af þeirri ástæðu hafi almannavarnir fengið til liðs við sig viðbragssveit pípulagningamanna til að kanna ástand hitakerfa fasteigna á skilgreindum svæðum í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert