Hlaut standandi lófatak: Erfitt að sjá heimilið ekki brunnið

Fundargestir risu úr sætum sínum fyrir Bryndísi Guðlaugsdóttur, Grindvíkingi og …
Fundargestir risu úr sætum sínum fyrir Bryndísi Guðlaugsdóttur, Grindvíkingi og áður bæjarfulltrúa. mbl.is/Arnþór

„Erfiðasti dagurinn frá 10. nóvember, þegar ég vaknaði um morguninn og sá að húsið mitt var ekki brunnið.“

Svo hljóðuðu upphafsorð Bryndísar Guðlaugsdóttur, Grindvíkings og fyrrverandi bæjarfulltrúa, þegar hún ávarpaði íbúafundinn í Laugardalshöll utan úr sal.

„Vegna þess að ef húsið mitt hefði brunnið þá hefði ég fengið fjárhagslegt sjálfstæði, ég hefði fengið vissu og ég hefði getað byggt upp nýtt heimili og þessi snara sem er utan um mig væri farin,“ sagði Bryndís, eftir að íbúum hafði verið gefið orðið fyrir spurningar.

Margir virtust á sama máli og Bryndís og tók við mikið lófatak í salnum og stóðu margir úr sætum sínum fyrir Bryndísi, sem var augljóslega klökk. 

Íbúafundur Grindvíkinga í Laugardalshöll.
Íbúafundur Grindvíkinga í Laugardalshöll. mbl.is/Arnþór

Óttast að fólk neyðist til að flytja aftur heim

Sagði hún augljóst vegna tíðra gosa á síðustu árum að það væri spurning um ár, ekki mánuði, hvenær Grindvíkingar gætu snúið heim, hvað sem heimþrá þeirra liði. 

Kvaðst Bryndís óttast mjög að stjórnvöld hygðust ekki hjálpa húseigendum Grindavíkur fjárhagslega og að fólk myndi í kjölfarið neyðast til að búa áfram í óöruggum aðstæðum í bænum. 

„Ég vil einhvern daginn fara aftur til Grindavíkur, vegna þess að ég er Grindvíkingur og ég vil hjálpa til að byggja upp bæinn aftur þegar hann verður öruggur,“ sagði Bryndís.

Spurði hún ráðherra hversu lengi Grindvíkingar þyrftu að búa við óvissu þar til stjórnvöld myndu bregðast við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert