Kvikugangurinn lyfti landinu við Svartsengi

Landsig mældist ekki á GPS-mælum Veðurstofunnar við Svartsengi skömmu áður en kvikan sem hafði safnast saman í kvikuhólfinu undir Svartsengi hljóp fram og eldgos hófst suðaustan við Hagafell. 

Er það ólíkt atburðarásinni 10. nóvember þegar kvikugangurinn undir Grindavík myndaðist, og þann 18. desember þegar eldgos hófst við Sundhnúkagígaröðina.

„Hvernig landrisið verður á hverjum stað og hvernig það sígur síðan niður á hverjum stað, það gæti mögulega verið háð þeim kvikugangi sem myndast hverju sinni,“ segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár hjá Veðurstofu Íslands og rannsóknarprófessor við umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands, í Dagmálum.

Í þættinum fór Benedikt yfir atburði helgarinnar og framhaldið á Reykjanesskaga.

Landris vegna kvikugangsins

Benedikt segist sjálfur horfa mikið til mælinga úr GPS-mælistöðinni við Svartsengi.

„Núna seig hún ekki en hún segi talsvert í fyrri kvikuinnskotum, þegar kvikugangarnir mynduðust.“

En hvað gæti það þýtt þá – að það sé enn mögulega kvika þarna sem fór bara ekki af stað?

„Ekkert endilega því að þegar kvikugangur riður frá sér, og þetta var sýnt á fundi í morgun, að þá lyftir hann líka landinu rétt hjá sér. Þannig mögulega hefur landris vegna kvikugangsins unnið á móti siginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert