Lækka ekki gjöld þótt tunnur sitji fullar um tíma

Vinna þarf lengri daga og um helgar til að halda …
Vinna þarf lengri daga og um helgar til að halda í eða vinna upp hirðutíðni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin innistæða er til lækkunar á sorphirðugjöldum í Reykjavík í þeim tilfellum þar sem sorphirða hefur tafist eða þar sem ruslatunnur hafa setið fullar í lengri tíma.

Þetta kemur fram í skriflegum svörum Guðmundar B. Friðrikssonar, skrifstofustjóra á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, við fyrirspurn mbl.is. Hann bendir á að sorphirðugjöld séu ákvörðuð samkvæmt heimild í lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Gjöldin séu reiknuð og áætluð almennt og sem næst raunkostnaði við fjárhagsáætlunargerð næsta árs. Þau eru reiknuð fyrir árið og ekki breytt nema verulegar breytingar verði á áætlun.

Lengri vinnudagar til að vinna upp hirðutíðni

„Samkvæmt framangreindum lögum um meðhöndlun úrgangs ber að innheimta að fullu fyrir öllum kostnaði við meðhöndlun úrgangs. Það að nú hafi orðið tafir á hirðu vegna færðar, bilana á hirðubílum og mikils magns úrgangs dregur ekki úr kostnaði við sorphirðu heldur þvert á móti eykur hann. Vinna þarf lengri daga og um helgar til að halda í eða vinna upp hirðutíðni. Það er því engin innistæða til lækkunar á hirðugjöldum,“ skrifar Guðmundur.

Þá bendir hann á að tekjur af sorphirðugjöldum hafa undanfarin fimm ár verið undir kostnaði við meðhöndlun úrgangs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert