Landris hafið á ný

Land er tekið að rísa á ný eftir að eldgos …
Land er tekið að rísa á ný eftir að eldgos braust út á sunnudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Land virðist vera tekið að rísa á ný á Reykjanesskaga.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

Þykir honum ekki ólíklegt að kvika sé aftur farin að safnast fyrir á fjögurra til fimm kílómetra dýpi í sama kvikuhólfi við Svartsengi.

Segir hann vísbendingar um að náttúran sé farin að leggja grunn að næsta atburði.

„Ef þetta heldur svona áfram gætum við verið að horfa á endurtekinn atburð,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Við fyllum í það [kvikuhólfið] og tæmum úr því og fyllum í það og tæmum úr því,“ útskýrir prófessorinn.

Svartsengismælirinn sýndi ekki landsig

Skömmu áður en eldgos hófst suðaustan við Hagafell á sunnudag sýndu mælar skammt frá Svartsengi landsig, til að mynda við Eldvörp og Skipastígshraun.

GPS-mælir við Svartsengi sýndi þó ekki landsig heldur landris. Að sögn Þorvaldar gæti útskýringin verið sú að mælirinn þar hafi verið nálægt jaðrinum á kvikuganginum. 

„Jaðrarnir á ganginum eða svæðið sem hvort sínu megin við ganginn, það lyftist en svæðið beint ofan við ganginn sígur niður. Það er eins og Svartsengismælirinn hafi lent ofan á svæðinu sem er að lyftast.“

Allir mælar á þessum slóðum virðast þó sýna landris núna. En þess má geta að ekki leið langur tími frá því að eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina lauk í desember og þar til mælingar sýndu að land var tekið að rísa á ný.

Eldgosinu lokið

Þorvaldur telur eldgosinu við Hagafell og Grindavík nú lokið. Síðasta „gusan“ sást koma upp úr gossprungunni um klukkan 00.37 í nótt.

Spurður hvort hann telji eldgos í Grindavík líklega sviðsmynd verði aftur kvikuhlaup, segir hann það ekki útilokað en hann telur þó líklegra að eldgos komi upp norðar á gosreininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert