Landris hafið á ný

Land er tekið að rísa á ný eftir að eldgos …
Land er tekið að rísa á ný eftir að eldgos braust út á sunnudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Land virðist vera tekið að rísa á ný á Reykja­nesskaga.

Þetta seg­ir Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands.

Þykir hon­um ekki ólík­legt að kvika sé aft­ur far­in að safn­ast fyr­ir á fjög­urra til fimm kíló­metra dýpi í sama kviku­hólfi við Svartsengi.

Seg­ir hann vís­bend­ing­ar um að nátt­úr­an sé far­in að leggja grunn að næsta at­b­urði.

„Ef þetta held­ur svona áfram gæt­um við verið að horfa á end­ur­tek­inn at­b­urð,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

„Við fyll­um í það [kviku­hólfið] og tæm­um úr því og fyll­um í það og tæm­um úr því,“ út­skýr­ir pró­fess­or­inn.

Svartseng­is­mæl­ir­inn sýndi ekki land­sig

Skömmu áður en eld­gos hófst suðaust­an við Haga­fell á sunnu­dag sýndu mæl­ar skammt frá Svartsengi land­sig, til að mynda við Eld­vörp og Skipa­stígs­hraun.

GPS-mæl­ir við Svartsengi sýndi þó ekki land­sig held­ur landris. Að sögn Þor­vald­ar gæti út­skýr­ing­in verið sú að mæl­ir­inn þar hafi verið ná­lægt jaðrin­um á kviku­gang­in­um. 

„Jaðrarn­ir á gang­in­um eða svæðið sem hvort sínu meg­in við gang­inn, það lyft­ist en svæðið beint ofan við gang­inn síg­ur niður. Það er eins og Svartseng­is­mæl­ir­inn hafi lent ofan á svæðinu sem er að lyft­ast.“

All­ir mæl­ar á þess­um slóðum virðast þó sýna landris núna. En þess má geta að ekki leið lang­ur tími frá því að eld­gos­inu við Sund­hnúkagígaröðina lauk í des­em­ber og þar til mæl­ing­ar sýndu að land var tekið að rísa á ný.

Eld­gos­inu lokið

Þor­vald­ur tel­ur eld­gos­inu við Haga­fell og Grinda­vík nú lokið. Síðasta „gus­an“ sást koma upp úr gossprung­unni um klukk­an 00.37 í nótt.

Spurður hvort hann telji eld­gos í Grinda­vík lík­lega sviðsmynd verði aft­ur kviku­hlaup, seg­ir hann það ekki úti­lokað en hann tel­ur þó lík­legra að eld­gos komi upp norðar á gos­rein­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert