Nóg til af lóðum fyrir einingahús

Í kjölfar eldgossins er fyrirséð að Grindvíkingar geta ekki snúið …
Í kjölfar eldgossins er fyrirséð að Grindvíkingar geta ekki snúið heim til sín í náinni framtíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfshópur um framboð á húsnæði fyrir Grindvíkinga til lengri tíma, sem skipaður var vegna afleiðinga náttúruhamfaranna á síðasta ári, kortlagði möguleika á lóðum fyrir uppbyggingu húsnæðis, einkum einingahúsa, í sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins. Í ljós kom að nóg er til af lóðum undir slíka uppbyggingu.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og formaður starfshópsins, segir að tillögum hópsins hafi verið skilað til innviðaráðherra fyrir jól.

Í gær fékk Kjartan Már þær upplýsingar úr innviðaráðuneytinu að búið væri að taka tillögurnar til umræðu í ríkisstjórn og í framhaldi hefði framkvæmdahópi innan stjórnsýslunnar verið falið það verkefni að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd.

Geti dugað í nokkur ár

„Ef ég man rétt þá var ráðgert að það tæki átta til tólf mánuði frá því að fyrsta ákvörðun er tekin og þar til fyrstu húsin geta litið dagsins ljós, en það er verið að vinna að alls konar öðrum lausnum á meðan, sem taka styttri tíma,“ segir hann.

14 manns áttu sæti í hópnum sem lagði í mikla vinnu við að afla upplýsinga og kortleggja möguleika á uppbyggingu húsnæðis og leysa úr vanda Grindvíkinga til lengri tíma. Ekki þó endilega sem framtíðarhúsnæði heldur húsnæði sem gæti a.m.k. dugað Grindvíkingum í nokkur ár á meðan þeir eru að átta sig á stöðunni og þróun mála í Grindavík, að sögn hans.

Kjartan Már segir að hópurinn hafi farið vel yfir reynslu Vestmannaeyinga af viðlagasjóðshúsunum sem reist voru eftir gosið í Heimaey árið 1973.

Ríkisins að ákveða

Að sögn hans eru tillögur hópsins til meðferðar í ríkisstjórn og hjá ráðherrum og hafa ekki verið gerðar opinberar.

„Við vorum fyrst og fremst að horfa á hvar væru tilbúnar lóðir hér á suðvesturhorninu. Við fundum talsvert magn af tilbúnum lóðum sem væri hægt að byrja að byggja á bara strax á morgun ef þannig háttaði til, þar sem allar stofnlagnir, raflagnir og veitur eru komnar. Þær eru svona hér og þar í sveitarfélögum á suðvesturhorninu og svo er það bara ríkisins að ákveða hvort og þá hvernig þau vilja hrinda þessu í framkvæmd,“ segir Kjartan Már.

Hópurinn skoðaði möguleikana á að reisa einingahús, sem gætu hentað. „Það voru mjög margir framleiðendur einingahúsa sem settu sig í samband við okkur. Ég held þeir hafi verið á annað hundrað, bæði innlendir umboðsmenn og framleiðendur og líka erlendir. Framkvæmdasýslan – ríkiseignir er svo með það mál á sinni könnu,“ segir hann.

Hann var spurður hvaða mat hann legði á þörf Grindvíkinga á húsnæði til lengri tíma litið sem hefur væntanlega aukist til muna vegna eldsumbrotanna sem hófust við Grindavík á sunnudagsmorguninn. „Það er nóg til af lóðum þannig að þó að þetta verði talsvert mikið að umfangi, þá á það ekki að verða vandamál,“ svarar Kjartan Már.

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert