Nýr sigdalur myndast í Grindavík

Frá Grindavík í gær. Nýr sigdalur hefur myndast í bænum, …
Frá Grindavík í gær. Nýr sigdalur hefur myndast í bænum, austan við sigdalinn sem myndaðist 10. nóvember. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Nýr sigdalur hefur myndast austan við sigdalinn sem myndaðist 10. nóvember í Grindavík. Sigdalurinn er um 800 til 1.000 metra breiður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. 

Sigdalurinn kom í ljós út frá gögnum sem safnað var og unnin voru á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands.

Kort/Veðurstofa Íslands

Dalurinn enn að víkka

Mesta sig í dalnum er um 30 sentimetrar og er svæðið enn að síga og dalurinn að víkka. 

Til samanburðar þá var sigdalurinn sem myndaðist 10. nóvember í gegnum Grindavík um 2 km breiður. Sigið innan hans var mest um 1,3 metrar.

Innan þessa nýja sigdals var áður búið að kortleggja sprungur sem höfðu myndast og voru sýnilegar á yfirborði. Þær sprungur hafa stækkað og nýjar myndast.

Hætta í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær hefur því aukist í austurhluta Grindavíkur frá því sem áður var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert