„Þetta var þungur fundur“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofunni, á …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofunni, á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll 16. janúar. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ekki unnt að svara því að svo stöddu hvort að ríkið muni kaupa út íbúðir Grindvíkinga. Hún kveðst sjá fyrir sér að sett verði sérstök lög um stöðuna sem upp er komin í Grindavík.

„Þetta var þungur fundur og ég hef mikinn skilning á því því fólk upplifði hér á sunnudag í raun og veru algjört bakslag. Þegar hraun kemur upp innan varnargarða – það auðvitað breytir stöðunni. Við erum bara að sjá mjög dökka sviðsmynd raungerast,“ segir Katrín í samtali við mbl.is að loknum íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll.

Hún segir að ríkisstjórnin hafi hingað til unnið hörðum höndum að því að tryggja skammtímaúrræði fyrir Grindvíkinga.

Atburðir síðustu daga breyti aftur á móti stöðunni. Nú þurfi að finna langtímalausnir fyrir Grindvíkinga. Hún segir að það sé í algjörum forgangi hjá ríkisstjórninni.

Sér fyrir sér sérlög

Katrín segir að búið sé að setja flestöll verkefni til hliðar til þess að finna lausn sem fyrst fyrir Grindvíkinga.

„Ég sé fyrir mér að það verði sett einhvers konar sérlög um stöðuna í Grindavík, ég held að það sé líklegasta leiðin núna. En það þarf auðvitað að tryggja að þau rammi mjög vel inn þau viðfangsefni sem við er að eiga. Þessi vinna stendur bara yfir,“ segir hún.

Alþingismaðurinn og Grindvíkingurinn Vilhjálmur Árnason hefur varpað fram þeirri hugmynd að ríkið kaupi út íbúðir Grindvíkinga í Grindavík.

Margir fundargestir kröfðust þess við ráðamenn á fundinum að fá svör við því hvort að ríkið væri til í slíka lausn, en fullnægjandi svör skorti að mati margra fundargesta.

„Við erum einfaldlega ekki komin á þann stað. Við erum að sjálfsögðu að reikna út þennan kostnað, af því að auðvitað þurfum við að gera það til að geta tekið ákvarðanir. Við þurfum að skoða kostnað við önnur úrræði líka. Það er að segja mögulegar aðrar leiðir, þannig við erum í raun bara að greina þær sviðsmyndir, meta kostnaðinn, skoða það líka út frá laga- og regluverki.“

Efnahagslegt framlag Grindvíkinga gríðarlegt

Katrín segir að ríkisstjórnin vinni eins hratt og hægt er en sé ekki með tímaramma á það hvenær langtímalausn muni standa Grindvíkingum til boða.

Grindvíkingurinn Páll Val­ur Björns­son hlaut mikl­ar und­ir­tekt­ir þegar hann tók til máls úti í sal á íbúafundinum. Þar sagði hann kostnaðinn við að borga Grind­vík­inga út vera smáaura í sam­an­b­urði við þann gjald­eyri sem bæj­ar­fé­lagið hafi skilað til lands­ins.

Spurð hvort að fjármagn sé hindrun við mögulegar lausnir, í ljósi þessara ummæla Páls, segir Katrín:

„Auðvitað er þetta stórt efnahagslegt áfall fyrir hvaða þjóð sem er. En eins og ég sagði líka, fyrir mér snýst þetta líka bara um skyldu okkar sem samfélag. Auðvitað viðurkenna allir og vita – efnahagslegt framlag Grindvíkinga og samfélagslegt framlag er gríðarlega mikið. En auðvitað er það bara þannig að við berum skyldu gagnvart Grindvíkingum alveg óháð því efnahagslega framlagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert