Þrír voru fluttir á slysadeild, þar af einn með þyrlu Landhelgisgæslunnar, eftir umferðarslys sem varð á gatnamótum Hvalfjarðarvegar og Hringvegar.
Tveir bílar lentu í árekstri við gatnamótin, fólksbíll og flutningabíll.
Að sögn Jens Heiðars Ragnarssonar, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar, eru viðbragðsaðilar enn þá á slysstaðnum og er Vesturlandsvegurinn lokaður um óákveðinn tíma á meðan lögreglan er að rannsaka vettvang og hreinsa veginn. Hann segir að reynt sé að hleypa umferð fram hjá um Hvalfjörð að einhverjum hluta.