Býst við miklu meira hrauni í ljósi sögunnar

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, tók …
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, tók til máls á íbúafundinum. Við hlið hans situr Ingi­björg Lilja Ómars­dótt­ir, fag­stjóri end­ur­reisn­ar hjá al­manna­vörn­um. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég veit náttúrulega ekkert um það hvort þetta mun standa í mánuði eða einhver ár, það sem ég er að segja er að það er fullkomin óvissa og það verður að líða dálítill tími þar til við teljum að það sé komið hlé,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll í gærkvöldi.

Hafði hann beðið um orðið í kjölfar fyrirspurnar fundargests um hvenær hún mætti fara og tæma húsið sitt.

Íbúafundurinn var þéttsetinn og mörgum fyrirspyrjenda nokkuð niðri fyrir enda …
Íbúafundurinn var þéttsetinn og mörgum fyrirspyrjenda nokkuð niðri fyrir enda gríðarlegir hagsmunir undir. Magnús Tumi Guðmundsson færði engar góðar fréttir eins og hann raunar tók sérstaklega fram í máli sínu. mbl.is/Arnþór

Hugsanlega heim í sumar

„Þið segið að það geti komið gos eftir mánuð,“ sagði fyrirspyrjandi sem kvartaði yfir því að hún mætti ekki fara og færa bílana sína. Hraunrennslið kvað hún hafa stöðvast rétt við hús hennar.

Næsti fyrirspyrjandi á eftir henni spurði svo meðal annars hvenær íbúar Grindavíkur gætu sótt eigur sínar, væru þeir ekki á leiðinni heim á næstunni.

Magnús kvað albjartsýnustu spá reikna með að fólk gæti farið að flytja aftur til baka í sumar.

„En ég vísa til sögunnar. Ef þetta verður eitthvað svipað þá á eftir að gjósa þarna og koma miklu meira hraun upp, ef þetta ætlar að hegða sér eins og fyrri atburðirnir,“ sagði prófessorinn og lauk máli sínu með þungri spá:

„Það er fullkomin óvissa og það er örugglega miklu betra að hugsa til lengri tíma en bara næstu vikna.“

Nú er ljóst að annar sigdalur hefur myndast í Grindavíkurbæ, …
Nú er ljóst að annar sigdalur hefur myndast í Grindavíkurbæ, samhliða því kvikuhlaupi sem leiddi til eldgoss 14. janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfitt að sjá að skynsamlegt verði að búa í Grindavík

Fyrr á fundinum hafði Magnús Tumi sagt, í kjölfar annarra fyrirspurna, að sjónarspilið vekti enga gleði. Það væri samfélagslegt mál að búa fólki líf og Grindavíkurhremmingarnar væru gríðarstórt högg, gengju næst Vestmannaeyjagosinu.

„Við núverandi aðstæður er mjög erfitt að sjá að það verði skynsamlegt að búa í Grindavík, ég held við þurfum að búa okkur undir langhlaup,“ sagði prófessor Magnús Tumi Guðmundsson í því svari sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert