Drengirnir sagðir fá vernd: Þorir varla að trúa því

Frændurnir Yazan (t.v.) og Sameer (t.h.) munu að öllum líkindum …
Frændurnir Yazan (t.v.) og Sameer (t.h.) munu að öllum líkindum hljóta dvalarleyfi hér á landi. Samsett mynd

Frændurnir Sameer og Yazan fá efnismeðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi. Þetta staðfestir fósturmóðir Yazans, Hanna Símonardóttir. 

Í samtali við mbl.is segir Hanna að drengjunum, sem eru 14 og 12 ára, hafi verið tjáð að umsókn þeirra verði að öllum líkindum samþykkt, þó svo að hún þori varla að trúa því fyrr en það sé gengið í gegn að fullu.

Aðskildir frá einu raunverulegu fjölskyldunni

Fregnirnar séu þó ljúfsárar þar sem fullorðnum frænda þeirra, sem þeir komu með til landsins, hafi verið synjað um efnismeðferð og skipað að yfirgefa landið. Kveðst Hanna ekkert botna í því að íslensk yfirvöld vísi Palestínumönnum úr landi á tímum sem þessum. 

„Hann verður væntanlega fluttur úr landi á morgun eða hinn (...) hann er eina raunverulega fjölskyldan sem þeir eiga hér á landi.“

Kveðst Hanna óttast mest að frændi þeirra verði handtekinn og fluttur úr landi af lögreglu áður en hann fái vegabréf sitt í hendurnar á ný. Þá hljóti hann tveggja ára inngöngubann í landið og geti ekki komið aftur. Hann geti aftur á móti ekki yfirgefið landið sjálfviljugur án vegabréfsins og því bíði þau nú óþreyjufull eftir að hann fái það í hendurnar á ný, en það var gert upptækt við inngöngu hans í landið.

„Meðferðin á þessu fólki er viðbjóðsleg“

Annar frændi drengjanna sem hér hafði dvalið í þrjú ár var endursendur til Grikklands í desember og segir Hanna það hafa legið þungt á drengjunum auk áhyggnanna af ættmennum þeirra á Gasasvæðinu.

„Hann hafði búið hér í þrjú ár og var í tveimur vinnum þannig það er ekki eins og hann hafi verið einhver baggi á samfélaginu,“ segir Hanna en hún segir frændurna, móðurbróður Yazans og föðurbróður Sameer, mjög nána drengjunum.

„Annar þeirra ólst upp á sama heimili og þessir stóru frændur því þarna býr stórfjölskyldan mikið til saman. Að því þau eru af landtökusvæðum. Þar var búið að hrekja þau til Gasa úr annarri borg þar sem þau áttu allt sitt.“

Segir hún frænda þeirra í Grikklandi nú heimilislausan og ganga á milli atvinnurekanda í leit að vinnu alla daga en Hanna og eiginmaður hennar hafa sent honum peninga fyrir mat. Örlög hans komi þó ekki á óvart enda hafi hann ásamt drengjunum orðið heimilislaus um leið og þeir hlutu kennitölu í Grikklandi en áður höfðu þeir í það minnsta gist í gámum.

„Meðferðin á þessu fólki er viðbjóðsleg,“ segir Hanna.

Áhyggjur af fjölskyldunum vega þungt á drengjunum en þau hafa …
Áhyggjur af fjölskyldunum vega þungt á drengjunum en þau hafa nú flúið sprengjuárásir í þrígang. Ljósmynd/Aðsend

Sáu húsið sitt sprengt á samfélagsmiðlum

Segir hún líðan drengjanna fara mikið eftir stöðunni á fjölskyldunni eins og gefi að skilja. Mikill munur hafi til að mynda verið á þeim á meðan á vopnahléi stóð og gott að heyra þá geta talað og jafnvel hlegið með ástvinum sínum heima í Palestínu.

Nýverið hafi aftur á móti liðið heilir átta dagar frá því að þeir náðu sambandi við fjölskylduna og hafi drengirnir þá báðir verið eins og skuggarnir af sjálfum sér. Í dag segir hún um fjóra daga liðna og því hafi farið að bera aftur á áhyggjum þeirra.

Hún segir fjölskylduna að minnsta kosti í þrígang hafa flúið sprengjur Ísraelhers með naumindum en oft hafi þau aðeins um tíu mínútna fyrirvara til að yfirgefa svæðið. Fjölskyldan hafi sundrast í desember þegar þau flúði sprengingu en annar drengjanna hafi þá séð heimili þeirra sprengt í sjónvarpinu.

„Þeir sáu á samfélagsmiðlum, eða einhverjum vefmiðli þarna úti, þegar bomban hitti húsið þeirra og það splundraðist. Þetta sáu þeir.“

Segir Hanna fjölskylduna hafa lifað árásina af og að lokum sameinast á ný í flóttamannabúðum en skömmu síðar hafi Ísraelsmenn byrjað að sprengja þar líka.

Sameer er aðeins 12 ára gamall en hann og Yazan …
Sameer er aðeins 12 ára gamall en hann og Yazan komu til landsins ásamt frænda sem senda á úr landi. Ljósmynd/Aðsend

Óttast mjög um líf fjölskyldna sinna

Þrátt fyrir mikinn létti yfir því að drengirnir hljóti að öllum líkindum dvalarleyfi hér á landi, fylgi því hins vegar mikil óþreyja að vita ekki hve langan tíma efnismeðferð þeirra taki og hvort þeir geti sameinast fjölskyldum sínum, segir Hanna. 

„Það veit engin hvað þetta getur tekið langan tíma. Það getur tekið vikur eða mánuði – það var bara gisk sem við fengum þarna á fimmtudaginn. Á meðan eru þau þarna í stöðugri lífshættu.“

Hanna segir drengina að sjálfsögðu vilja sækja um fjölskyldusameiningu við foreldra sína og systkini hið fyrsta til að bjarga þeim út af Gasa en það sé ekki hægt án dvalarleyfis. Þeir óttist mikið um líf þeirra og segir Hanna verulegt álag á drengjunum enda líði oft margir dagar á milli þess sem þeir heyri frá fjölskyldunni.

„Það getur engin sett sig í þau spor sem þeir eru í – ég get það ekki einu sinni þó ég standi við hliðina á þeim. Hvernig sé að bíða eftir því að geta reynt að byrja að bjarga lífi fólksins síns.“

Fréttin hefur verið uppfærð 17/01/24 16:35:
Áður sagði að frændi drengjanna biði eftir útgáfu nýs vegabréfs, en rétt er að hann bíður eftir vegabréfi sínu sem var gert upptækt við inngöngu hans í landið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert