Hending að jörð skyldi ekki rifna í bænum miðjum

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ávarpaði Grindvíkinga á íbúafundinum í …
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ávarpaði Grindvíkinga á íbúafundinum í gærkvöldi og kvað fáa hafa upplifað fimm eldgos á þremur árum. mbl.is/Arnþór

„Ég var nú inni í bænum í gær og mín tilfinning er að það hafi verið hending að þessi sprunga rétt fyrir utan efstu byggð – að jörð skyldi ekki rifna inni í bænum miðjum,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, er hann ávarpaði íbúa Grindavíkur á íbúafundinum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.

Hóf Úlfar mál sitt með því að segja að þær væru orðnar margar, dagsetningarnar í starfi hans og þeirra viðbragðsaðila er að hamfaramálum á Reykjanesskaga hefðu komið undanfarið.

„Eldgosin eru orðin fimm nú þegar og í hvert sinn sem landris byrjar höfum við fengið smá hnút í magann,“ sagði lögreglustjóri.

„Við fórum gegnum fjögur eldgos þar sem við töldum upphafsstað eldgosa vera heppilegan,“ hélt hann máli sínu áfram.

Úlfar vék máli sínu að því þegar gossprunga opnaðist við …
Úlfar vék máli sínu að því þegar gossprunga opnaðist við norðurjaðar bæjarins á hádegi sunnudags. mbl.is/Árni Sæberg

„...að þið getið verið inni í ykkar bæ“

Þetta hefði hins vegar breyst á sunnudaginn þegar eldgos hófst í túnjaðri Grindavíkur. Hefði það verið mikil mildi að sprungan opnaðist ekki í bænum miðjum og að rýming hefði gengið svo vel sem raun bar vitni.

„Í gegnum tíðina hef ég einsett mér að reyna að hjálpa til við að þið getið verið inni í ykkar bæ,“ sagði Úlfar við íbúa Grindavíkur. „Sumir hafa verið gagnrýnir á þá ákvörðun að hleypa fólki inn með þeim varnaðarorðum að það sé á eigin ábyrgð.“

Staðan væri hins vegar eilítið önnur nú.

„Það er hættulegt að dvelja í bænum og það er enginn í bænum í dag aðrir en viðbragðsaðilar og þeir sem sinna verðmætabjörgun. [...] Við fáum gos í fangið á sunnudaginn og í dag er flokkur pípulagningamanna inni í bænum að reyna að [fyrirbyggja tjón] og koma vatni og rafmagni á austurbæinn,“ sagði lögreglustjóri enn fremur.

Á vefmyndavélum er erfitt að gera sér grein fyrir hversu …
Á vefmyndavélum er erfitt að gera sér grein fyrir hversu þykk hraunbreiðan við Grindavík er. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonast til að koma megi bænum í gott lag

Kvað hann viðbragðsaðilum hafa gengið bærilega að tryggja öryggi Grindvíkinga þrátt fyrir skelfingaratburð í síðustu viku er maður féll ofan í djúpa sprungu og fannst ekki þrátt fyrir miklar aðgerðir og leit á vettvangi.

„Ég vona innilega að okkur takist að koma bænum í gott lag,“ sagði Úlfar lögreglustjóri undir lok erindis síns.

„Horfurnar eru ekki góðar, þetta eru viðsjárverðir tímar, við þekkjum það, og fáir sem hafa upplifað fimm eldgos á þremur árum. Með ykkur í liði gengur starf viðbragðsaðila einstaklega vel og ég á ekki von á öðru en að það verði framhald á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert