Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra óskaði í gær eftir því að íbúar Grindavíkur afhentu húslykla sína svo unnt væri að kanna ástand hitakerfa fasteigna þar í bænum eftir undangengna tjónsatburði.
Var lykla að húsum á ákveðnu svæði þá fyrst og fremst óskað en þrátt fyrir það gátu, eftir því sem almannavarnadeildin greinir frá í tilkynningu, allir íbúar sem það vildu skilað af sér lyklum sínum í þjónustumiðstöð hennar í Tollhúsinu við Tryggvagötu milli klukkan 10 og 17 ellegar í húsnæði Brunavarna Suðurnesja að Flugvöllum 33 í Reykjanesbæ.
Nú er hins vegar svo komið að kallað er eftir öllum lyklum að öllum fasteignum þar sem fjöldi pípulagningarmanna hafi fengist í það verkefni að koma á heitu vatni í húsum bæjarins með það fyrir augum að koma í veg fyrir tjón.
Vitnar almannavarnadeildin í tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum frá því fyrr í dag þar sem fram kom að ekki væri talið forsvaranlegt að hleypa íbúum Grindavíkur til heimila sinna, slíkt yrði eingöngu heimilt viðbragðsaðilum og þeim sem vinna að verðmætabjörgun.
Tekur almannavarnadeildin fram að ábyrgðarhlutverk sé að taka á móti húslyklum fólks og verði lyklanna mjög vel gætt. Síðar verði tilkynnt með hvaða hætti þeim verði skilað.