Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt karlmann fyrir brot í nánu sambandi og var hann dæmdur í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu samtals 1,8 milljónir í miskabætur.
Fram kemur í dómnum að háttsemi mannsins hafi verið heimfærð til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga en ekki talin skilyrði til að sakfella fyrir 2. mgr. sama ákvæðis, en það getur varðað allt að 6 ára fangelsi, eða 16 árum sé brotið stórfellt.
Eiginkona mannsins, sem var einn brotaþola, neitaði að gefa skýrslu fyrir dómi. Skýrsla hennar hjá lögreglu sem tekin var upp í hljóði og mynd og studd framburði stjúpdóttur brotaþola í Barnahúsi sem og öðrum gögnum, var lögð til grundvallar sönnun, að því er segir í dómi héraðsdóms sem féll 10. janúar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákærði manninn fyrir stórfelld brot í nánu sambandi á tímabilinu frá 21. maí 2022 til 29. apríl 2023. Í ákæru segir að hann hafi endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð barnsmóður sinnar sem og stjúpdóttur sinnar með andlegu og líkamlegu ofbeldi í þeirra garð, hótunum, eignaspjöllum og brotum gegn nálgunarbanni.
Maðurinn neitaði sök og byggði sýknukröfu á því að engum sönnunargögnum væri fyrir að fara varðandi meinta háttsemi hans. Fyrir dómi kvaðst hann jafnframt ekki muna eftir ákveðnum atvikum sem lýst er í ákæru vegna ölvunar.
Héraðsdómur telur framburð beggja brotaþola um að andlegt og líkamlegt ofbeldi hafi átt sér stað um langt skeið, og í raun lengur en frá 21. maí 2022, vera trúverðugan.
Fram kemur í dómnum, að frá þeim tíma hafi verið um endurtekin brot að ræða gegn brotaþolunum, sem öll virt saman beri með sér að á tímabilinu 21. maí 2022 til 29. apríl 2023 hafi maðurinn endurtekið ógnað lífi, heilsu og velferð beggja brotaþola.
„Ákærði á sér litlar málsbætur þótt líta verði til þess að mati dómsins að brotaþoli A hafi átt einhvern þátt í broti ákærða á nálgunarbanni þann 6. apríl 2023. Einnig þykir verða að taka tillit til þess að ákærði og brotaþoli búa enn saman. Þykir refsing ákærða því hæfilega ákveðin níu mánaða fangelsi, sem skal skilorðsbundin eins og nánar greinir í dómsorði,“ segir í dómnum.
Héraðsdómur dæmdi jafnframt manninn til að greiða stjúpdóttur hans 1,2 milljónir kr. í miskabætur og þriggja ára dóttur hans 600.000 kr. í bætur.