Ósköp einfalt að koma fólkinu frá Gasa

Askur Hrafn og Mohammed Alhaw sem hefur dvalið í tjaldbúðunum …
Askur Hrafn og Mohammed Alhaw sem hefur dvalið í tjaldbúðunum frá því að mótmælin hófust þann 27. desember. Ljósmynd/Aðsend

Mótmæli Palestínumanna sem halda til í tjöldum á Austurvelli hafa nú staðið yfir í 22 daga. Aðstæður eru erfiðar enda hefur verið fimbulkuldi síðustu daga. Þrátt fyrir það er of mikið í húfi og mótmælendur staðráðnir í að ná sínu markmiði, að fá fólkið sitt heim. 

Þetta segir Askur Hrafn Hann­es­son aðgerðasinni og einn þeirra sem stend­ur að skipu­lagn­ingu mót­mælanna. Einungis tveir mótmælendur hafa dvalið á Austurvelli frá upphafi mótmælanna, það eru þeir Mohammed Alhaw og Naji Assar, segir Askur en bendir á að fólk hafi skipst á að dvelja næturlangt í tjöldunum. 

„Þetta hafa verið rosalega erfiðar aðstæður og erfitt að halda úthaldinu þegar maður er kominn þrjár vikur inn í þessa aðgerð, en málið er bara að það er einfaldlega of mikið í húfi og baráttuviljinn er of sterkur til þess að við förum eitthvað að missa dampinn núna,“ segir Askur fullur eldmóðs. 

Guðmundur Ingi kom skemmtilega á óvart 

Eins og fram hefur komið í umfjöllun mbl.is eru kröfur Palestínumannanna sem dvelja á Austurvelli þríþættar: Að stjórn­völd standi við fjöl­skyldusam­ein­ing­ar, að palestínskt flótta­fólk sem hingað er komið fái hæli og að ráðherr­ar verði við ósk þeirra um fund, þ.e. ut­an­rík­is­ráðherra, dóms­málaráðherra og fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra.

Á mánudag fengu mótmælendur loks fund með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Askur segir fulltrúa Palestínufólks sem á rétt á fjölskyldusameiningu og nokkra aðgerðarsinna hafa mætt til fundarins. 

Aðspurður segir hann það hafa komið skemmtilega á óvart hversu móttækilegur Guðmundur Ingi var fyrir kröfum þeirra. Ræddu þau helst hvað stæði í vegi fyrir því að fjölskyldusameiningarnar væru framkvæmdar. 

Aðstæður á Austurvelli hafa verið erfiðar enda kalt um þessar …
Aðstæður á Austurvelli hafa verið erfiðar enda kalt um þessar mundir. Ljósmynd/Aðsend

Utanríkisráðherra „með fótinn fyrir hurðinni“

„Félagsmálaráðuneytið virðist vera búið að undirbúa allt sem þau geta undirbúið. Það er eiginlega allt klappað og klárt,“ segir Askur. Blaðamaður spyr þá hvað stendur í vegi fyrir fjölskyldusameiningunum og Askur svarar því til að þær standi á utanríkisráðuneytinu. 

„Hann Bjarni [Benediktsson utanríkisráðherra] er í rauninni með fótinn fyrir hurðinni,“ segir Askur, sem segir nokkuð einfalt að fylgja eftir fjölskyldusameiningunum. 

„Eina sem þarf að gera er að senda egypsku sendiráðunum á Norðurlöndunum upplýsingar um nöfnin og dvalarleyfi, og koma nöfnum fólksins á Rafha-landamæralistann. Síðan þarf diplómata til að bíða við landamærin og taka á móti þeim. Þetta er svo einfalt, það er eina sem þarf að gera, en Bjarni er með fótinn við dyrnar.“

Hyggst Guðmundur Ingi ekkert beita sér varðandi þetta? 

„Jú hann virðist móttækilegur og allur að vilja gerður,“ segir Askur en ítrekar að mótmælendur á Austurvelli muni ekki gefast upp og víkja fyrr en þeir sjá fólkið sitt koma óhult út af Gasa. 

„Norðurlöndin hafa sjálf verið að bjarga dvalarleyfishöfum“

Þrátt fyrir jákvæðni Guðmundar Inga á fundi hans við mótmælendur hafa íslensk stjórnvöld sagt Norðurlöndin ekki hafa áhuga á því að aðstoða Palestínumenn við fjölskyldusameiningar, segir Askur. 

„Það er ósatt vegna Þess að Norðurlöndin hafa sjálf verið að bjarga dvalarleyfishöfum og það er ósatt það sem að Katrín [Jakobsdóttir forsætisráðherra] hefur sagt að þetta séu bara ríkisborgararéttshafar.“

Hann bætir við að eftir fundinn við Guðmund Inga hafi ráðherrann virst frekar lausnamiðaður og móttækilegur 

„En það er takmarkað hversu marktækt það er ef hann er ekki búinn að sýna það í verki. Þannig að við bíðum spennt eftir að sjá framhaldið og ef þau hafa áhuga á að koma fólkinu út þá er það ósköp einfalt,“ segir Askur. 

Askur segir mótmælendur hafa fundið fyrir mikilli velvild. Veitingastaðir hafi …
Askur segir mótmælendur hafa fundið fyrir mikilli velvild. Veitingastaðir hafi meðal annars fært með mat. Ljósmynd/Aðsend

Jákvæður fyrir því að fá ótímabundið leyfi 

Talið berst að leyfinu sem Reykjavíkurborg hefur veitt fyrir mótmælunum og dvölinni á Austurvelli. Askur segir framlengt leyfi renna út á miðnætti en hann er þó á leið til fundar við Borgaryfirvöld í dag. Kveðst hann binda vonir við að hægt verði að komast að samkomulagi um framtíðar tjaldbúðir. 

Sérðu fyrir þér að þið fáið ótímabundið leyfi?

„Mögulega, tónninn í þeim hefur verið mjög jákvæður og lausnamiðaður. Borgaryfirvöld hafa ekkert á móti veru okkar þarna og ekki heldur lögreglan sem hefur meðal annars sagt að við séum til fyrirmyndar. Það eru einungis ónefndir þingmenn í stjórnarflokkum sem hafa lýst yfir óánægju sinni.“

Þrátt fyrir gagnrýnisraddir ónefndra þingmanna segir Askur mótmælendur hafa mætt mikilli velvild frá almenningi. Stór hluti fólks hafi fært þeim mat og drykk, auk þess sem matsölustaðir í kring hafi fært þeim tilbúna rétti. Þá hafa þau fengið að nýta salerni hjá Dómkirkjunni og fengið vatn hjá Samtökunum ´78. Askur ber þessu fólki góðar kveðjur. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert