Rauði krossinn á Íslandi segir skilið við Rapyd

Umræða um sniðgöngu Rapyd og annarra fyrirtækja sem lýst hafa …
Umræða um sniðgöngu Rapyd og annarra fyrirtækja sem lýst hafa yfir stuðningi við Ísrael hefur aukist að undanförnu. Samsett mynd

Rauði krossinn á Íslandi vinnur nú að því að skipta úr greiðslumiðlunarkerfinu Rapyd. Þetta staðfestir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastýra samtakanna. 

„Bara í framhaldi af umræðunni – við erum hluti af samfélaginu. Líka þegar svona margir eru að skipta,“ segir Kristín í samtali við mbl.is. 

Segir Kristín þegar hafa staðið til að einfalda greiðslukerfi þvert á þjónustur Rauða krossins hvort sem er, en í kjölfar samfélagslegrar umræðu hafi þau ákveðið að ganga í breytingarnar í desember.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauði krossins á Íslandi.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauði krossins á Íslandi.

Forstjóri Rapyd stuðningsmaður Ísraels

Aðspurð segir hún samtökunum ekki hafa borist margar kvartanir varðandi notkun þeirra á Rapyd-kerfinu, heldur hafi skrifstofan tekið ákvörðunina sjálfstætt.

Það gangi þó hægar fyrir sig en við var búist þar sem svo virðist sem aðrir greiðsluhirðar eigi í fullu fangi með að taka á móti nýjum viðskiptavinum. 

Rapyd hefur hlotið harða gagnrýni eftir að Arik Shtilman, forstjóri fyrirtækisins, sagði að allar aðgerðir Ísrael á Gasa væru réttlætanlegar vegna þess að markmiðið væri að uppræta Hamas-samtökin.

Hefur hann birt ófáar færslur á LinkedIn um stuðning sinn og fyrirtækisins við Ísrael en Shtilman er sjálfur þaðan.

Furðar sig á notkun Rapyd í Grindavíkursöfnun

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, birti í dag færslu á Facebook-reikningi sínum þar sem hann kvaðst undrandi á að Rauði krossinn notaði enn þjónustu Rapyd á greiðslusíðu sinni.

Hann hafi rekið augun í nafn fyrirtækisins er hann ætlaði að styrkja við Grindavíkursöfnun samtakanna en hafi hætt snarlega við og millifært beint á reikning Rauða krossins.

Benti formaður Rauða krossins, Silja Bára Ómarsdóttir, á í athugasemd við færsluna að þegar væri í vinnslu að skipta um færsluhirði og benti á aðrar leiðir til að styrkja við söfnunina fyrir Grindavík.

Áköll um að sniðganga vörur og viðskipti við Ísrael hafa færst töluvert í aukana að undanförnu þar sem mörgum þykir Ísraelsmenn ganga of hart í árásum sínum á óbreytta borgara á Gasasvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert