Engin merki voru sýnileg um að gossprunga væri að myndast við bæjarmörk Grindavíkur fyrr en kvika hafði brotið sér leið upp til yfirborðs laust eftir klukkan 12 á sunnudag. Jarðskjálfta- og aflögunarmælingar sýndu þó að kvikugangur næði hugsanlega undir Grindavík.
„Við fengum í raun og veru engar vísbendingar,“ segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár hjá Veðurstofu Íslands, spurður hvort einhver merki hefðu komið fram rétt áður en sprungan opnaðist.
Benedikt ræddi atburði liðinnar helgar í Dagmálum. Hægt er að hlýða á brot úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
„Svona ofarlega í jarðskorpunni þá er styrkur bergsins orðinn það lítill að ef að það er einhver jarðskjálftavirkni með þá er hún afar lítil. Þetta er margbrotið, það eru margar sprungur þarna,“ segir Benedikt.
„Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið neinar aðvaranir í raun og veru hvar gossprungan væri að myndast,“ heldur hann áfram.
Benedikt segir aftur á móti grundvallarforsenduna fyrir því að gosop myndist vera þá að kvikugangur liggi undir.
Jarðskjálftamælingar og aflögunarmælingar hafi gefið til kynna að kvikugangurinn næði undir Grindavík.