Skil sjónarmið Grindvíkinga hundrað prósent

Hraunstaflar ná íbúðarhúsunum að hæð við norðurenda byggðarinnar í Grindavík.
Hraunstaflar ná íbúðarhúsunum að hæð við norðurenda byggðarinnar í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að aðaláherslan í dag verði lögð á að koma vatni og rafmagni á allan Grindavíkurbæ. Íbúar koma ekki til með að fá aðgang að bænum í verðmætabjörgun að svo stöddu að hans sögn. 

„Verkefni dagsins verður að vinna með heitt vatn og rafmagn. Það verða um 50 manns við störf inni í bænum yfir daginn. Þetta er hópur lögreglumanna, slökkviliðs- og björgunarsveitarmanna, sérfræðinga frá veitufyrirtækjunum og pípulagningarmenn,“ segir Úlfar við mbl.is.

Hann segir að enginn aðrir en þessir aðilar fari inn í bæinn að svo stöddu, hvorki íbúar né fjölmiðlar.

„Við þurfum að tryggja svæðið áður en íbúum verður hleypt inn í bæinn í verðmætabjörgun. Það þarf að meta aðstæður, skoða jörðina og þær sprungur sem þar liggja. Þetta er mjög viðkvæmt og hættulegt svæði að öllu leyti. Það hefur berlega komið í ljós síðustu daga.“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, á íbúafundinum í Laugardalshöll í …
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, á íbúafundinum í Laugardalshöll í gær. mbl.is/Arnþór

Heitt vatn og rafmagn er komið á Grindavík að mestu en í gær var unnið við að koma á heitu vatni og rafmagni í austurhluta bæjarins.

„Heitu vatni var hleypt inn í austurhlutann í gærkvöld en af öryggisástæðum var verkefninu ekki fylgt eftir inn í nóttina. Nú verður farið yfir svæðið og þau hús skoðuð sem eru í austurhluta bæjarins. Þetta er sú vinna sem er í gangi og það sér ekki fyrir endann á henni.“

Hann segir ómögulegt að segja til um það hvort það takist að koma á rafmagni og hita á allan bæinn í dag.

Sterkt ákall um að eignir verði greiddar út

Úlfar var á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöllinni í gær en þangað mættu fjölmargir Grindvíkingar og kröfðu stjórnvöld um svör við spurningum sínum. Spurður út í andrúmsloftið á fundinum segir Úlfar:

„Staðan er bara gríðarlega erfið hjá Grindvíkingum og mér sýnist vera uppi sterkt ákall hjá þeim um að eignir þeirra verði greiddar út. Ég skil það sjónarmið alveg 100 prósent. Það er óvissa og bæði Magnús Tumi og Kristín Jónsdóttir töluðu um það á fundinum að það væri mikil óvissa með búsetu í Grindavík ef litið er til framtíðar.“

Hann segir að örugglega sé einhver hluti íbúa Grindavíkur sem hefur tekið ákvörðun um að flytja sig á annan stað en hópurinn sé jafnframt í gríðarlegri erfiðri stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert