„Stærstu spurningunni ósvarað“

Guðmundur Pálsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Grindavík, á íbúafundi Grindvíkinga í …
Guðmundur Pálsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Grindavík, á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll. mbl.is/Hermann

Guðmundur Pálsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Grindavík, segist á íbúafundi Grindvíkinga með fulltrúum stjórnvalda, almannavarna og ýmissa annarra sem að málefnum Grindvíkinga koma í Laugardalshöll í dag, hafa fengið svör við einhverjum þeirra spurninga sem brenna á honum en segir stærstu spurningunni ósvarað.

„Hvort fara eigi eftir tillögunni hjá Vilhjálmi þingmanni um að borga upp húsin og við fáum á þeim forkaupsrétt. Við fáum að halda þeim við og kaupa þau til baka þegar róast,“ segir Guðmundur.

Segist hann í samtali við mbl.is skilja að stjórnvöld þurfi ráðrúm til að fara yfir málið og hugsa það. Hann segir um mikla peninga að ræða en segir að fjárhæðin sem til þurfi jafnist á við ein Vaðlaheiðagöng og í því samhengi sé ekki um mikla peninga að ræða.

Guðmundur telur stjórnvöld hafi um einn mánuð til að afgreiða þetta mál. Hann segir að þó ákvörðunin sé erfið þá þurfi að taka hana og telur hann sig vita að vilji sé fyrir hendi að borga upp fasteignir bæjarbúa með þeim hætti sem framan greinir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert