Starfsmanninum bar ekki að sannreyna skilríkin

Svens þarf ekki að greiða stjórnvaldssekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Svens þarf ekki að greiða stjórnvaldssekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að Svens ehf. þurfi að greiða 200.000 króna stjórnvaldssekt sökum þess að sextán ára drengur nýtti sér fölsuð skilríki til þess að kaupa nikótínpúða. 

Þetta kemur fram í úrskurði Úrskurðanefndar umhverfis- og mannvirkjastofnunar. 

Sala nikótínpúðanna átti sér stað þann 21. apríl 2023. Kom drengurinn þá inn í verslun Svens í þeim tilgangi að kaupa nikótínpúða. Þar sem starfsmaður verslunarinnar var í efa um að drengurinn hefði náð 18 ára aldri óskaði hann eftir að sjá skilríki. Drengurinn sýndi starfsmanni verslunarinnar skilríki, síðar kom þó í ljós að skilríkin voru fölsuð eða röng og drengurinn ekki nema 16 ára gamall. 

Einungis fyrirmæli um að skoða skilríki ekki sannreyna þau

Málið hófst með ábendingu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þremur dögum síðar eða þann 24. apríl. Í andsvörum Svens við meðferð málsins kom fram að starfsfólk væri minnt á það daglega að biðja um skilríki léki vafi á aldri kaupanda. Einnig upplýsti verslunin um að til væri myndband af atvikinu í myndavélakerfi verslunarinnar. 

Upptakan sýnir ungan einstakling sýna starfsmanni á skjá á farsíma. Í niðurstöðu úrskurðarins segir að ekki sé hægt að staðreyna hverju var framvísað á skjá farsímans, þessi vafi var þó túlkaður Svens í hag, enda ekkert sem benti til þess að starfsmaður verslunarinnar hefði getað séð í gegnum blekkingar viðskiptavinarins, eða að hann hafi sýnt af sér gáleysi.

Jafnframt var vísað til þess að hvorki væri að finna skýr fyrirmæli í lögum eða öðrum bindandi reglugerðum um að starfsmanninum bæri að sannreyna skilríkin. Var því litið til þess að með því að óska eftir skilríkjum drengsins hafi starfsmaðurinn verið að vinna í samræmi við fyrir mæli laga. Í ljósi þess var ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar felld úr gildi. 

Formaður nefndarinnar skilaði séráliti

Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmanna lét sérálit fylgja úrskurðinum þar sem fram kemur að hann telji ekki ástæðu til að fella ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar úr gildi. 

Hann rökstyður sérálit sitt þannig að Svens hafi tekið ákvörðun um að taka stafræn ökuskírteini sem sýni fram á aldur gild og því verði ekki greint á milli þeirrar ákvörðunar og þess verklags sem lýst er í opinberum leiðbeiningum um hvernig sannreyna skuli umrædd skírteini með einföldum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert