Kári Freyr Kristinsson
„Nei, ég held að það komi ekki til greina og það hefur ekki verið rætt.“
Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, spurð hvort það komi til greina að setja neyðarlög vegna ástandsins í Grindavík.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kvaðst í samtal við mbl.is, eftir íbúafundinn í gær, sjá fyrir sér að sett yrðu sérstök lög um stöðuna sem upp er komin í Grindavík.
Telur þú – miðað við tóninn á íbúafundinum – að ríkisstjórnin hafi brugðist Grindvíkingum?
„Nei, ég tel svo ekki vera, en ég skil mjög vel fólk sem hefur þurft að flýja heimilin sín og er á vergangi í eigin landi, að það fólk upplifi allan skalann af tilfinningum,“ svarar Guðrún.
„Það hefur líka flækt málin að það hefur verið mjög sterkt í umræðunni að Grindvíkingar vilji fara til baka.“
Guðrún segir það mikilvægt að vanda til verka.
„Við sem erum að stýra landinu verðum að vanda ákvarðanirnar sem eru teknar, þannig að þær komi Grindvíkingum og landinu öllu virkilega til góða.“