„Þetta er það sem við þurftum að heyra“

Grindvíkingar eru þakklátir jarðfræðingum fyrir að segja það hreint út að þeir gætu ekki búið aftur í Grindavík næstu árin, þó þeir hafi vonað annað.

Þetta segir Vilhjálmur Árnason þingmaður en hann og Hallfríður Hólmgrímsdóttir sveitarstjórnarmaður eru í viðtali Dagmála á morgun, fimmtudag.

Þátturinn verður í opinni útsendingu, öllum opinn.

Hraun ruddi sér leið inn í Grindavík um hádegisbilið á …
Hraun ruddi sér leið inn í Grindavík um hádegisbilið á sunnudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt betra en óvissan

Þau segja þungt yfir Grindvíkingum öllum og þeim hafi fallið allur ketill í eld um liðna helgi. Það sé þó skömm skárra að vita nú, að þau séu ekki á leið aftur heim í bráð, allt sé betra en sú óvissa sem Grindvíkingar hafi búið við síðustu mánuði.

Við það geti fólk óhikað farið að huga til næstu framtíðar í stað þess að lifa dag frá degi. Það sé hins vegar ekki þannig að öll óvissa sé úr sögunni og þar eru húsnæðismálin efst á blaði. 

Þorri bæjarbúa sé bundinn við íbúðarhúsnæði í bænum, sem hann geti ekki notað, en húsnæði annars staðar af skornum skammti og ekki gefið.

Mikið tjón blasir við í Grindavík eftir að eldgos braust …
Mikið tjón blasir við í Grindavík eftir að eldgos braust út við jaðar byggðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindavík muni lifa sem samfélag

Því ríði á að fram komi lausnir á borð við uppkaup á húsnæði þeirra með forkaupsrétti, svo fólk eigi kost á því að festa kaup á húsnæði annars staðar. Þannig geti þeir, sem það geta, fundið sér hýbýli við hæfi, en stjórnvöld einbeitt sér að lausn vanda þeirra, sem ekki eru í þeirri stöðu.

Bæði eru á einu máli um að Grindavík muni lifa sem samfélag, en Hallfríður segist vonast til þess að fólk tali sig saman og haldi hópinn, jafnvel þannig að það flytji á sömu slóðir.

Þar komi margt til greina, jafnvel ný byggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert