Útboð á vindmyllum fyrir Búrfellslund

Búrfellslundur.
Búrfellslundur. Ljósmynd/Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur ákveðið að auglýsa útboð á vindmyllum fyrir vindorkuver við Vaðöldu sem ber vinnuheitið Búrfellslundur. Verkefnið er boðið út með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál.

Þetta segir í tilkynningu frá Landsvirkjum en þar segir að verkefnið hafi verið í þróun í rúman áratug og var samþykkt í nýtingarflokk rammaáætlunar í júní 2022. Sótt var um virkjunarleyfi í október sama ár með fyrirvara um afgreiðslu skipulagsmála.

Vinna við aðalskipulagsbreytingu og gerð deiliskipulags fyrir svæðið hefur staðið yfir frá desember 2022 með Rangárþingi ytra en Búrfellslundur er alfarið innan þess sveitarfélags.

Framkvæmdatíminn áætlaður tvö ár

Einnig er unnið að samningum við íslenska ríkið sem landeiganda, en landsvæðið er innan þjóðlendu.

kort sem sýnir hvar vindorkuverið verður ef allt gengur upp.
kort sem sýnir hvar vindorkuverið verður ef allt gengur upp. Kort/Landsvirkjun.

Framkvæmdatíminn er áætlaður tvö ár en vegna veðurskilyrða á Íslandi er framkvæmdagluggi verkefnisins mjög stuttur. Hann takmarkast að mestu við sumartímann, einkum uppsetning vindmyllanna. Frestun á ákveðnum verkþáttum verkefnisins getur því seinkað gangsetningu um heilt ár.

Allt að 30 vindmyllur verða í Búrfellslundi, hver og ein með 4-5 MW uppsett afl og samanlögð orkugeta verður um 440 GWst á ári. Rammaáætlun gerir ráð fyrir allt að 120 MW uppsettu afli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka