Ákveðið hefur verið að fresta vinnu við að koma á vatni og rafmagni á hús í Grindavík í dag af öryggisástæðum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum. Þar segir að unnið sé að kortlagningu á sprungum í og við Grindavík.
„Í Grindvík er talin vera mjög mikil hætta á jarðskjálftum, sprungum, hraunflæði, sprunguhreyfingum, gosopnun án fyrirvara og hættulegri gosmengun. Hættumatskort Veðurstofunnar sem gefið var út í gær klukkan 15 gildir til 19. janúar kl. 15 að öllu óbreyttu,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is í morgun að mikill snjór væri í Grindavík og ekki væri hægt að senda pípulagningamenn inn í bæinn.
Í tilkynningu frá almannavörnum í morgun kom fram að fyrirhuguð ferð fjölmiðla inn á lokað svæði í og við Grindavík verði ekki farin í dag.