Dagur kvaddur með þremur stórveislum

Fráfarandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, var kvaddur með virktum í …
Fráfarandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, var kvaddur með virktum í borgarstjórn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil hátíðahöld hafa staðið yfir á vettvangi Reykjavíkurborgar í tilefni af brotthvarfi Dags B. Eggertssonar úr stól borgarstjóra. Á þriðjudaginn sl. lét hann af því starfi en settist þess í stað í stól formanns borgarráðs og hafði þar sætaskipti við Einar Þorsteinsson sem nú hefur tekið við starfi borgarstjóra.

Af þessu tilefni var haldin allfjölmenn veisla í Höfða eftir borgarstjórnarfund á þriðjudag og var til veislunnar boðið m.a. öllum borgarfulltrúum meirihlutans í borgarstjórn, þ.e. Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Framsóknarflokksins, auk oddvita beggja minnihlutaflokkanna, Sósíalistaflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn og sósíalisti fengu ekki boð

Sex borgarfulltrúum var ekki boðið, þ.e. einum úr röðum sósíalista og fimm sjálfstæðismönnum. Þá var og boðið til veislunnar ýmsum samstarfsmönnum Dags fyrr og síðar sem og embættismönnum Reykjavíkurborgar.

Heimildir Morgunblaðsins herma að fjölmenni hafi sótt veisluna og fjöldi boðsgesta hafi numið allmörgum tugum hið minnsta.

Þá voru á þriðjudagsmorgun haldin boð á Höfðatorgi þar sem flestöll svið Reykjavíkurborgar eru til húsa. Þar var jafnframt fólk hvatt til þess að taka myndir af sér með Degi. Einnig var boð í Ráðhúsinu.

En ekki var látið þar við sitja. Þannig var sendur út fjölpóstur á þriðjudag undir yfirskriftinni „Takk fyrir mig!“, þar sem boðið er til fagnaðar í Borgarleikhúsinu nk. laugardag kl. 15.00. 

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert