Algjör eðlisbreyting hefur orðið á verkefni ríkisstjórnarinnar í tengslum við Grindavík vegna eldgossins í nágrenni bæjarins á dögunum.
Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum.
„Það sem breytir okkar vinnu er sú eðlisbreyting sem hefur átt sér stað. Það eru ekki margir dagar síðan verið var að ræða hvenær fólk gæti farið aftur til síns heima;” segir Þórdís Kolbrún.
Síðastliðinn laugardag hafi verið ákveðið að loka bænum vegna rannsókna á jarðveginum en daginn eftir hafi hraun farið að renna inn í bæinn með tilheyrandi eðlisbreytingu og áfalli fyrir Grindvíkinga.
„Þetta er fólk sem hefur sjálfstæðan vilja og mismunandi aðstæður og hefur tekið ýmsar ákvarðanir á mismundi stigum í þessu ferli. Það verður að bera virðingu fyrir því og hafa skilning á því. En það breytir ekki því að allt þetta fólk hefur orðið fyrir áfalli og helgin hefur verið öllum gríðarlega erfið.”
Þórdís Kolbrún segir ríkisstjórnina þurfa að koma með skýr svör til lengri tíma í ljósi þess að ekki verði hægt að búa í Grindavík á næstu misserum, að mati vísindamanna.
„Það breytir verkefninu og eftir því plani vinnum við núna. Það kallar á stærri ákvarðanir en við höfum tekið til þessa og allur fókus er á það. Það þarf að vinna slíkt af yfirvegun og skynsemi vegna þess að það er mikill ábyrgðarhluti hvaða ákvarðanir eru teknar, hvernig þær eru teknar og hver útfærslan á þeim er,” greinir hún frá og vonast eftir að ráðamenn geti veitt Grindvíkingum skýr svör á allra næstu dögum.