„Eftiráafleiðingarnar hafa verið dálítið öðruvísi fyrir mig en marga vegna þess að ég skírðist aldrei, ég hef því getað haft eitthvert samband við þá úr fjölskyldunni sem enn eru inni,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir í samtali við Morgunblaðið.
Hún fæddist inn í trúfélagið Votta Jehóva en yfirgaf það fimmtán ára gömul. „Afleiðingarnar við að alast upp í umhverfi með neikvætt félagslegt taumhald eru hins vegar þær sömu, hvort sem maður er skírður eða ekki,“ heldur hún áfram.
Eydís er nýkomin heim frá Ósló í Noregi þar sem hún hefur setið hluta aðalmeðferðar máls Votta Jehóva gegn norska ríkinu fyrir Héraðsdómi Óslóar í hverju trúfélagið krefst þess að fá ríkisstyrki sína til baka en þeim var það svipt með úrskurði fylkismannsins í Ósló og Viken í janúar 2022 í kjölfar þess er norska ríkisútvarpið NRK afhjúpaði útskúfun og útilokun Votta Jehóva í þáttaröðinni Guðs útvöldu, eða Guds utvalde, sem rannsóknarblaðamennskuteymi Brennpunkt hafði veg og vanda af.
Taldi embætti fylkismanns háttsemi stjórnenda Votta Jehóva brjóta gegn lögum um trúfélög en norska barna- og fjölskylduráðuneytið hafði falið embættinu að kanna málatilbúnað og úrskurði trúfélagsins.
Í Guðs útvöldu greindu stjórnendur Brennpunkt frá þeim skilyrðum sem Vottar Jehóva settu félögum sínum, svo sem að ungmennum væri þar gert að gera nákvæma grein fyrir kynhegðun sinni fyrir öldungum trúfélagsins, auk þess að ræða við fyrrverandi votta sem hafði verið útskúfað og áttu sér þá sumir hverjir mjög takmarkað eða ekkert félagslegt bakland á eftir.
Tóku ný lög um trúfélög gildi í Noregi árið 2021 og var öllum trúfélögum boðið að endurnýja skráningu sína til samræmis við þau lög. Vottar Jehóva uppfylla hins vegar ekki þau skilyrði sem þarf til að vera skráð trúfélag í Noregi í ljósi nýju laganna.
Krefst trúfélagið þess nú fyrir Héraðsdómi Óslóar – auk þess að úrskurðurinn um framangreint verði dæmdur ógildur – að ríkið greiði þeim samtals 51 milljón norskra króna, jafnvirði tæplega 672 milljóna íslenskra króna, auk vaxta, sem er sú upphæð sem félagið telur sig eiga inni hjá ríkinu vegna sviptra styrkja árin 2021 til 2023.
Hefur fjöldi vitna komið fyrir dóminn, hvort tveggja hátt settir stjórnendur innan trúfélagsins og fyrrverandi félagar sem sætt hafa útskúfun, og greinir Eydís Morgunblaðinu frá því hvernig félagsmenn hafi fjölmennt í þingsalinn og í að minnsta kosti einu tilfelli hafi öldungur úr öldungaráði trúfélagsins setið beint fyrir aftan konu í vitnastúku sem hann sjálfur hafði úrskurðað að skyldi útskúfað.
„Þarna mættust líka fyrrverandi vottar og skírðir ættingjar þeirra,“ segir Eydís. „Til dæmis var þarna vottur sem ég horfði upp á horfa fram hjá foreldrum sínum og yngri systur. Hann lét eins og hann þekkti þau ekki. Sama með tengdadótturina. Vitni úr hópi fyrrverandi votta þekktu nánast alla vottana sem mættu og höfðu í mörgum tilfellum verið náin þeim,“ segir hún af viðstöddum í réttarsalnum.
„Mamma var vottur þegar ég var lítil,“ heldur Eydís áfram. „Hún skildi við pabba sem var samt alltaf á hliðarlínunni í félaginu. Hann fór á samkomur og hélt ekki jól og allt það en tók aldrei skrefið til fulls. Þau skildu þegar ég var sex ára og eins og þessu var stillt upp fyrir mér þegar ég var sex ára var mamma farin út úr söfnuðinum og ég náttúrulega bara trúði því að hún væri að fara að deyja í harmageddon [heimsendi samkvæmt kenningum Votta Jehóva] sem ég trúði að kæmi fyrir árið 2000,“ segir hún frá.
„Þetta var sett upp þannig fyrir okkur systkinunum að pabbi lofaði því að hjálpa okkur að lifa af harmageddon ef við veldum hann við skilnaðinn. Þannig að við öll systkinin veljum í raun að búa hjá pabba algjörlega ótengt öllu öðru en að við ætluðum að lifa af harmageddon þannig að okkar samband við móður okkar var að mörgu leyti eyðilagt með þessu. Bróðir minn til dæmis bauð mömmu ekki í brúðkaupið sitt,“ segir Eydís sem kveðst í framhaldinu hafa alist upp að mestu innan safnaðarins.
„Pabbi drakk mikið og ég fékk nóg af því þegar ég var fimmtán ára og ákvað að flytja heim til mömmu – sem ég hafði verið í mjög takmörkuðu sambandi við fram að því – þar sem ég fékk næði til að vera ég,“ rifjar Eydís upp. Móðir hennar tjáði sig ekkert um trúfélagið við dóttur sína, hvorki jákvætt né neikvætt, en ók henni á samkomur og leyfði henni algjörlega að ráða ferðinni.
„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara þarna út var samkoma sem ég mætti á, bóknám sem var alltaf á þriðjudögum. Þetta var flensutímabil og margir veikir og þarna var bara einn skírður karlmaður sem var fjórtán ára og svo konur og börn,“ segir Eydís af deginum sem hún ákvað að hún ætti ekki samleið með Vottum Jehóva.
Kona í hópnum hafi þarna ákveðið að taka stjórnina yfir bóknáminu, „sem konur mega ekki gera en þarna var enginn annar hæfur til að stjórna. Hún setti svo upp 66 gráður norður húfu og sagðist setja höfuðfatið á sig til að sýna undirgefni sína við karlmanninn og Jesú og guð. Af því að hún væri kona þyrfti hún að setja höfuðfatið á sig til að sýna að hún væri undirgefin.“
Kveðst Eydís þarna hafa séð sína sæng upp reidda þegar kona þessi – sem hún bar mikla virðingu fyrir – lét frá sér þessa yfirlýsingu. „Og ég fór aldrei aftur á samkomu, þarna var bara eitthvað sem small hjá mér. En þarna var ég líka kannski með rýmið til að hugsa sjálf þar sem ég bjó hjá mömmu sem var ekki lengur hluti af söfnuðinum og berskjaldaði mig því ekki lengur fyrir þessu neikvæða félagslega taumhaldi sem er allsráðandi í söfnuðinum.
Hefurðu sætt aðkasti síðan þú hættir í félaginu?
„Af því að ég skírðist ekki má fólk í félaginu nálgast mig og tala við mig, en sambandið er alltaf takmarkað. Ég hef aldrei upplifað eðlilegt samband við þá ættingja sem eru hluti af söfnuðinum. En það er bara vegna þess að ég var ekki skírð. Þau trúa því náttúrulega að ég og mín fjölskylda muni deyja von bráðar í harmageddon þannig að það er kannski lógískt, í þeirra augum, að setja ekki mikla orku í það að byggja upp samband við mig, fyrir utan það hversu „slæmur félagsskapur“ ég er þar sem ég er ekki vottur. Í Vottunum er ekki ungbarnaskírn, börn eru skírð mun síðar, ég held að meðalaldurinn sé 14-15 ára,“ útskýrir Eydís og enn fremur að foreldrarnir taki ekki ákvörðun um skírnina, börnin svari spurningum og í kjölfarið ákveði öldungarnir hvort þau séu tilbúin eður ei.
Hafi barn ekki hlotið skírn fimmtán ára gamalt sé algengt að jafnaldrar þess í söfnuðinum líti það hornauga, ýti því jafnvel til hliðar og haldi vissri fjarlægð. „Ég ólst upp í þessu og fyrir mér var þetta eðlilegt, ég hafði engan samanburð. En núna er elsta barnið mitt tvítugt og ég hef alið mín börn upp – og sjálfa mig í raun upp á nýtt – og þá kannski áttar maður sig á því hve sterkt og mótandi þetta neikvæða félagslega taumhald er og hversu alvarlegar afleiðingar það hefur,“ segir Eydís frá.
Hún ólst upp á Akureyri en var síðar á Reyðarfirði og í Fellabæ. „Á Reyðarfirði var ég bara eina stelpan sem var vottur, fyrir utan mig voru það bara systkini mín og einhver yngri börn. Ég man bara eftir þessari tilfinningu að vera mikið ein. Ég mátti ekki fara á bekkjarkvöld, ég mátti ekki fara á árshátíðir og ég tók ekki þátt í íþróttum eftir skóla, en ég held að ég sé búin að banka á dyrnar á hverju einasta húsi á Austurlandi byggðu fyrir 1994,“ segir Eydís af árunum fyrir austan.
Hver voru rökin fyrir þeim reglum – að mega ekki sækja skemmtanir með fólki utan trúfélagsins?
„Vottarnir sjá sig ekki sem hluta af heiminum. Þeir trúa því að heimurinn – sem er allt fyrir utan trúfélagið – sé á valdi hins vonda og þar séu bara satan og illir andar að reyna að ná þér frá Jehóva og beiti öllu sem þeir geta. Þeir gangi bara um eins og öskrandi ljón, leitandi að þeim sem þeir geti gleypt. Svona var mér kennt að horfa á fólk utan safnaðarins. Þess vegna þurfi maður að passa sig á kennurum og líka öðrum börnum, að þau séu ekki að taka hug þinn frá Jehóva,“ segir Eydís og heldur áfram – því málið er enn flóknara.
„Það skiptir líka máli hvernig þú eyðir tímanum þínum. Eyðirðu honum í að gera eitthvað fyrir Jehóva eða ertu bara að gera eitthvað sem er bara gaman en gæti komið í veg fyrir að þú komist í gegnum harmageddon? Þetta er alltaf þessi hræðsla. Jehóva veit líka hvað þú hugsar. Hann sér ekki bara hvað þú gerir heldur hvað þú hugsar svo þú þarft að passa að hugsa ekki vondar hugsanir. Þá deyrðu bara í harmageddon,“ segir Eydís.
Börn með takmarkaðan þroska og skilning á lífinu og rökhugsun gleypi þessar upplýsingar hráar og þær verði raunveruleiki þess. „Þú þarft alltaf að passa hvað þú gerir og með hverjum þú ert. Hvað þú hugsar. Ef þú ert með einhverjum „af heiminum“ sem vill fara að gera eitthvað sem þér er bannað þá ertu bara í stórhættu og upplifir þig í raunverulegri lífshættu. Bara það að kaupa happdrættismiða er hugsanlega lífshættulegt. Þetta er mjög sérstakt og eitthvað sem ég á erfitt með að útskýra almennilega,“ segir vottabarnið fyrrverandi.
Eydís bendir í framhaldi þessarar lýsingar á aðra hlið málsins en þess má geta að hún man fyrst eftir að hafa orðið vitni að útskúfun trúsystkinis síns þegar hún var fimm ára gömul. „Ef þú brýtur af þér á einhvern hátt, til dæmis unglingar sem fara að stunda kynlíf, hvort sem það er sjálfsfróun eða með öðrum, eða umgengst fólk sem hefur yfirgefið söfnuðinn, spyrð of erfiðra spurninga varðandi trúna eða stjórnun safnaðarins, þá áttu á hættu að vera rekinn og í framhaldinu útskúfað. Þetta er gríðarlegur hræðslufaktor því það er ekki bara söfnuðurinn sem útskúfar þér, það er fjölskyldan þín líka,“ segir Eydís og nefnir dæmi.
Hún minnist vel stúlku sem þá var fimmtán eða sextán ára gömul og var hent út af heimili sínu. „Hún átti bara að redda sér sjálf. Ef ég hugsa til krakkanna á Akureyri held ég að alla vega helmingurinn af þeim, kannski meira, hafi farið út í alls konar rugl. Sum hafa farið aftur inn í söfnuðinn, enda erfitt að fóta sig sem ung manneskja þegar allt stuðningsnetið er tekið í burtu. Það hefur svo alvarlegar afleiðingar fyrir fólk að alast upp í svona hræðslustjórnunarumhverfi,“ rifjar Eydís upp.
Þeir fyrrverandi vottar sem stigu í vitnastúkuna í Héraðsdómi Óslóar við aðalmeðferð málsins hafi að sögn Eydísar margir hverjir tjáð dómaranum að þeir þjáðust af flókinni áfallastreituröskun (e. complex post traumatic stress disorder).
„Það segir manni rosalega mikið og ég er sjálf greind með þessa röskun, venjuleg áfallastreituröskun er vegna einhvers sem gerist á fullorðinsárum, fólk lendir til dæmis í slysi, en flókin röskun þróast hjá þér þegar þú ert barn og heilinn ekki fullþroskaður, oftast vegna þess að barn býr í lengri tíma við óöruggar aðstæður,“ útskýrir Eydís.
Vottar Jehóva kenni að það versta sem fólk í söfnuðinum geti gert sé að yfirgefa hann, það sé þá á valdi satans og alveg síðasta sort af fólki. „Svo þegar þú hættir sjálfur þá er svo innprentað í þig að þetta fólk sé vont að þú vilt ekki vera jafn vondur með því að fara og tala við það. Þetta er stjórn sem nær út yfir það þegar þú hættir,“ segir Eydís og rifjar upp að hópur fyrrverandi votta á Íslandi hafi þó tekið að ræða saman vegna Kompásþátta Sunnu Valgerðardóttur um trúarofbeldi er hún hlaut blaðamannaverðlaun fyrir í fyrra.
„Þá áttuðum við okkur á því að við áttum okkur öll þessa sömu reynslu, sömu áföll og sömu langvarandi afleiðingar. Við vorum þarna einhverjar sex eða sjö konur sem þurftu allar að fara af vinnumarkaði í mislangan tíma til að vinna í sjálfum okkur. Þetta er mjög kostnaðarsamt fyrir ríkið og fyrir samfélagið, að fólk sé svo illa farið mörgum árum eftir þessa reynslu að það geti ekki stundað fulla vinnu kannski í lengri tíma,“ segir Eydís af reynslu þeirra kvennanna er tóku að ræða málin sín á milli.
Við snúum talinu að réttarhöldunum í Ósló og því sem fram fór við aðalmeðferð máls Votta Jehóva gegn norska ríkinu. Fyrst kemur þó örlítill formáli.
Eydís greinir frá því að eftir að vottarnir fyrrverandi tóku að ræða saman hafi félagsskapurinn Samtök áhugafólks um trúarofbeldi litið dagsins ljós. Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um mál Votta Jehóva skrifaði talsmaður trúfélagsins í Skandinavíu, Norðmaðurinn Jørgen Pedersen, aðsenda grein sem birtist í Morgunblaðinu 18. mars í fyrra.
„Þar skrifaði hann að allt væri á misskilningi byggt og Vottum Jehóva þætti miður að svona illa væri talað um þá,“ segir Eydís sem svaraði erindi Pedersens með aðsendri grein á Vísi. „Eftir að ég skrifaði þessa svargrein var ég komin í þá stöðu að verða að sætta mig við það, að að öllum líkindum muni enginn vottur vilja tala við mig aftur.
Þeir mega í rauninni ekki lengur sitja við sama borð og ég og fá sér kaffi með mér, það er bannað að borða og drekka við sama borð og andstæðingar Jehóva – sem er það sem þeir titla mig núna. Elsti bróðir minn hefur til dæmis ekki verið í sambandi við mig eftir að ég skrifaði þessa grein – og ég svo sem ekki við hann heldur. Einhverjir ættingjar hafa líka rofið tengslin við mig á samfélagsmiðlum,“ segir Eydís af afleiðingum greinarinnar sem Vísir birti.
Vegna framangreinds – og ekki síst til að sýna öðrum fyrrverandi vottum stuðning – hafi Eydís ákveðið að sækja réttarhöldin í Ósló og þar hafi hún ekki verið ein á báti, þvert á móti. Fyrrverandi vottar frá öllum Norðurlöndunum auk vinafólks Eydísar frá Belgíu hafi verið þar á fleti fyrir en núverandi vottar hafi einnig fjölmennt í sal héraðsdóms.
„Vottarnir reyna þarna að hnekkja þeim ástæðum sem ríkið gaf fyrir að þeir uppfylli ekki skilyrðin til að fá styrkinn. Það var ótrúlega mögnuð reynsla að fara þarna inn, salurinn var fullur af vottum og voru margir þeirra svokallaðir umdæmishirðar, þeir eiga að sjá um söfnuðina og passa upp á öldungana og svo voru þarna öldungar og einnig margt fólk sem var tengt vitnunum,“ segir Eydís frá.
Kveður hún vottana hafi reynt að raða áhrifamiklu fólki sem næst vitnastúkunni svo sem í dæmi vitnisins sem getið er hér að framan – fyrir aftan það vitni sat öldungurinn sem rak vitnið úr söfnuðinum á sínum tíma.
„Þeir koma um leið og húsið opnar og reyna að fylla alla fremstu bekkina,“ segir Eydís frá og bætir því við að málflutningur vitnanna hafi verið sláandi, Noomi nokkur Pilot brotnaði til dæmis saman í vitnastúkunni eins og fyrsta mynd við þetta viðtal sýnir. Af fólkinu sem situr fyrir aftan Pilot og sést á myndinni eru átta vottar og má lesa úr svip sumra þeirra hvernig þeim þóknast vitnisburðurinn.
„Maðurinn minn er ekki vottur, hann sat við hliðina á mér og táraðist en þegar maður leit á vottana þá voru þau alveg frosin á svipinn gegnum öll réttarhöldin,“ segir Eydís en þau Guðmundur Stefán Gunnarsson maður hennar skildu vel hvað fram fór í réttinum efnislega þar sem þau bjuggu um árabil í Danmörku svo norskan er þeim skiljanleg.
„Þarna var líka fjölskylda sem var ekki búið að reka úr söfnuðinum, eru það sem kallað er „faded“ [fölnuð, dofnuð, bliknuð], þau eru sem sagt á gráu svæði. Einn daginn var tengdadóttir þeirra í salnum og hún vildi ekki tala við þau. Daginn eftir mætti sonur þeirra en hann passaði sig á að líta aldrei í átt til þeirra.
Á sama tíma voru vottarnir að reyna að halda því fram fyrir réttinum að söfnuðurinn færi ekki fram á að skyldfólk útilokaði hvert annað. Að það væri einstaklingsákvörðun,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir að lokum af lífi sínu með Vottum Jehóva og réttarhöldum í Ósló þar sem trúfélagið stefnir norska ríkinu til greiðslu sem nemur mörg hundruð milljónum íslenskra króna eftir að norsk yfirvöld sviptu þau öllum greiðslum frá ríkinu.
Nánar verður fjallað um réttarhöldin og dóminn er þar að kemur hér á mbl.is.