Mikill snjór í Grindavík hamlar vinnu í bænum

Grindavík úr lofti.
Grindavík úr lofti. mbl.is

Það hefur snjóað mikið í Grindavík í nótt og í morgun sem gerir það af verkum að vinna pípulagningarmanna í bænum getur ekki hafist strax.

„Það er töluvert mikill snjór í Grindavík og við sendum ekki pípulagningarmenn inn í bæinn í morgun vegna ástandsins. Það er talað um að það eigi að hætta að snjóa á svæðinu um hádegisbilið og við erum að undirbúa snjómokstur á götum ákveðins hluta Grindavíkurbæjar, þar sem vinnan stendur yfir,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við mbl.is.

Úlfar segir að það verði metið hvort óhætt verði að hleypa pípulagningarmönnunum inn í bæinn þegar líður á morguninn en hann segir vinnu við varnargarðana við Svartsengi vera í fullum gangi.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

2/3 hluti bæjarsins með vatn og rafmagn

„Vinna pípulagningarmannanna í gær gekk ágætlega. Þetta er komið í þokkalegt ástand en það er ekki kominn hiti og rafmagn á öll hús í bænum. Líklega er 2/3 hluti bæjarins með vatn og rafmagn,“ segir Úlfar.

Hann segir einungis pípulagningarmenn ásamt viðbragsaðilum fá aðgang að bænum í dag þegar færi gefst og síðan fari það eftir hættumatinu hvenær íbúum verði hleypt inn í bæinn í verðmætabjörgun.

„Við erum ekki að hleypa fólki inn í bæinn þegar kvarðinn er á mjög miklu hættustigi,“ segir Úlfar.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að fyrighugaðri ferð fjölmiðla inn á lokað svæði við Grindavík verður ekki farin í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert