Um 30 viðskiptavinir Íslandsbanka lentu í því í morgun að kannast ekki við færslur á greiðslukortum sínum.
Svikavakt Íslandsbanka hafði samband við korthafana og frysti greiðslukortin þeirra, að því er kemur fram í svari bankans við fyrirspurn mbl.is.
„Íslandsbanka barst ábending í morgun frá korthöfum sem könnuðust ekki við færslur á greiðslukortum sínum, í framhaldi hafði svikavakt Íslandsbanka samband við hlutaðeigandi korthafa, frysti greiðslukort og bað korthafa að taka afstöðu með eða á móti færslunni,” segir í svarinu.
„Kannist viðskiptavinur ekki við færsluna þá hefur viðskiptavinur endurkröfurétt og getur fengið færslunni hnekkt hafi hann ekki samþykkt hana. Þetta voru um 30 tilvik,” segir jafnframt í svarinu.
Bankinn kveðst ekki geta upplýst um hversu háar upphæðirnar voru en samkvæmt heimildum mbl.is voru þær umtalsverðar og í einhverjum tilfellum var um fleiri en eina færslu að ræða hjá sama viðskiptavini.