„Öruggast að fresta vinnunni“

Grindavík úr lofti.
Grindavík úr lofti. mbl.is

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að í ljósi veðuraðstæðna í Grindavík hafi verið tekin sú ákvörðun að fresta allri vinnu í bænum í dag.

Síðustu daga hefur fjölmennur flokkur pípulagningarmanna verið við störf í bænum ásamt viðbragðsaðilum við að koma vatni og rafmagni á hús í bænum og fara yfir hitakerfin. Til stóð að þeir héldu áfram vinnu sinni í dag en þeirri vinnu hefur nú verið slegið á frest.

„Það hefur snjóað mikið á Suðurnesjum og það er mikill snjór í Grindavík. Vinna hófst við að moka í bænum í morgun og við mátum það sem svo að öruggast væri að fresta þeirri vinnu sem hefur verið í gangi. Snjómoksturinn gengur vel enda eru afar fáir í bænum. Þarna eru vanir menn á ferð og eru undir handleiðslu viðbragðsaðila á staðnum sem eru margir hverjir heimamenn,“ segir Úlfar við mbl.is.

Hann segist frekar eiga von á því að vinna pípulagningarmannanna geti hafist á nýjan leik á morgun enda sé veðurspáin skárri fyrir morgundaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert