„SA hafði ekki trú á verkefninu“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir vonbrigði breiðfylkingar verkalýðsfélaga gríðarlega að ekki hafi náðst saman með Samtökum atvinnulífsins.

Hann segir grundvallaratriði máls vera það að SA hafi hafnað nálgun verkalýðsfélaganna til mögulegrar þjóðarsáttar. Hverfa þurfi því aftur að teikniborðinu og hugsa kjaraviðræður upp á nýtt.

Aðferð SA hafi aldrei áður verið beitt

„Þetta snýst fyrst og fremst um kostnaðarmat okkar við kjarasamninginn er vel innan þess ramma sem Seðlabankinn hefur gefið út að svigrúm sé fyrir til launahækkana.

Það sem SA vill gera er að draga frá okkar kostnaðarmati áætlað launaskrið. Þetta er ný aðferðarfræði sem aldrei hefur verið notuð við kjarasamningaborðið og er bæði ósanngjörn og ófyrirleitin, að mínu mati.“

Ragnar Þór segir aðferðarfræði verkalýðshreyfingarinnar hafi legið fyrir frá upphafi og að baki henni hafi legið mikil greining þeirra eigin sérfræðinga sem og hlutlausra aðila.

Aðildarfélög SA skoði ákvarðanir stjórnar

„Ég er mjög hugsi yfir því á hvaða vegferð SA er þessa stundina. Þegar það fer að skýrast hvað var raunverulega á borðinu þá held ég að aðildarfélög SA muni líka setja upp stórt spurningarmerki við framgöngu stjórnar og forystu SA.“

Ragnar Þór segir ýmsar leiðir hafa áður verið farnar við samningsgerð en engar þeirra hafi komið í veg fyrir launaskrið. Hann segir aðra þætti í atvinnulífinu ráða því, svo sem eftirspurn eftir starfsfólki, líkt og sjáist glöggt til dæmis í ferðaþjónustu.

„Fyrirsláttur SA er það að launafólk á almennum markaði þurfi að taka á sig meint launaskrið annarra hópa, sem að menn hljóta að sjá að gengur aldrei upp. Þetta hefur aldrei verið til umræðu við kjaraborðið fyrr en fyrst nú. Ég get ekki verið bjartsýnn að það verði breyting á þessu viðhorfi miðað við samskipti síðustu funda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert