„Við viljum halda samtalinu áfram og reikna okkur niður á niðurstöðu sem þjónar heildarhagsmunum þjóðarinnar,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) í samtali við mbl.is nú í morgun.
SA sendi frá sér tilkynningu nú í morgunsárið sem að einhverju svarar yfirlýsingu frá breiðfylkingu stéttarfélaga sem send var út í gær.
„Það er mikilvægt að það komi fram að SA hefur ekki slitið viðræðum við breiðfylkinguna. Í þessum viðræðum hefur komið fram að það er miklu fleira sem við erum sammála um heldur en við erum ósammála um,“ segir Sigríður Margrét.
Hún segir að einhverju hafi þokast áfram á hverjum fundi og að allir séu sammála um efnahagslegu forsendurnar, svigrúmið sem sé til staðar og áhersluna á lægstu launin.
„Við erum alveg sammála um áhersluna á hækkun lægstu launa, því hún er skiljanleg í samfélagi sem leggur áherslu á jöfnuð. Við vitum það að þau sem hafa lægstu launin þurfa mest á kjarasamningsbundnum hækkun á að halda, sérstaklega þegar verðbólga er mikil. Þess vegna leggjum við áherslu á það í þessum viðræðum að við séum að fara bil beggja, það er að við séum að nota aðra aðferðarfræði. Því öll viljum við auðvitað ná niður verðbólgu og skapa skilyrði til vaxtalækkunar. Það er sannarlega ákall eftir stöðuleika og því að að fólk og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir.“
Áhyggjur SA snúast helst að því að krónutöluhækkanir einar og sér muni skila sér upp launastigann í formi launaskriðs. Sigríður Margrét telur því kostnaðaráhrifin af þeirri aðferð oft vanmetna í upphafi.
SA segir í tilkynningu sinni að verðhækkanir á nauðsynjavörum og húsnæði vegi þyngra í útgjöldum launalægri hópa en launahærri hópa. Sigríður Margrét er því spurð að því hvort þetta sé ekki liður sem að miklu leyti sé á valdi félagsmanna SA að halda í skefjum. Hún svarar því játandi og bætir við:
„Stjórn SA hefur sent út afdráttarlausa þar sem við höfum beint því til ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja að halda aftur af gjaldskrárhækkunum eins og frekast er unnt, til að styðja við þessi samningsmarkmið. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá sveitarfélögunum og svo hafa fyrirtækin verið að stíga fram undanfarið. Því allir vilja að okkur takist verkefnið.“
Í kjölfar nýliðinna náttúruhamfara er ljóst að ríkisvaldinu bíður ærin verkefni. Hún er því spurð hversu bjartsýn hún sé með að ríkisvaldið geti stigið inn í viðræðurnar með afgerandi hætti:
„Okkar viðsemjendur hafa lagt áherslu á aðkomu stjórnvalda. Það er ekki SA sem hefur kallað eftir því. Við höfum hins vegar lagt áherslu á það að ef það á að ná stefndum stöðuleika þurfi allir að sýna ábyrgð. Í því samhengi er líka horft til þess að ríkisfjármálin séu í jafnvægi og haldið sé aftur af gjaldskrárhækkunum. Vissulega er breytt staða fyrirsjáanleg og taka þarf tillit til þess.“